Ávarp formanns Vatnajökulsþjóðgarðs
Ráðherrar, sveitarstjórnarmenn, góðir gestir.
Ég bþð ykkur öll velkomin til þessa merkilega viðburðar í sögu íslensku þjóðarinnar: stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs í Evrópu. Eins og ykkur er væntanlega kunnugt er stofnhátíðin haldin samtímis á fjórum rekstrarsvæðum garðsins – í Gljúfrastofu í Jökulsárgljúfrum, á Skriðuklaustri í Fljótsdal, í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri og hér í Skaftafellsstofu. Dagskráin verður í fyrstu sameiginleg, og verður ræða umhverfisráðherra send út á öll hátíðarsvæðin með vefvarpi, en síðan taka við ávörp svæðisráðsformanna á hverju svæði, staðbundin skemmtiatriði og veitingar. En áður en umhverfisráðherra flytur ræðu sína langar mig sem stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs að nýta tækifærið og segja ykkur dálítið um aðdragandann að stofnun þjóðgarðsins og störf stjórnar hans undanfarna mánuði.
Þann 1. maí 2007 voru lögin um Vatnajökulsþjóðgarð (nr. 60/2007) samþykkt með stuðningi allra flokka á alþingi, en lögin kveða á um að garðurinn verði stofnaður með reglugerð. Þá reglugerð mun umhverfisráðherra undirrita í dag, 7. júní 2008.
Tillögur ráðgjafarnefndarinnar sem skilaði af sér 2006 fólu í sér drög að mögulegum mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs, skiptingu þjóðgarðsins í fjögur rekstrarsvæði, ítarlegar tillögur að uppbyggingu þjónustunets innan garðsins, fimm ára framkvæmdaáætlun og tillögu að uppbyggingu stjórnkerfis þjóðgarðsins.Þessar tillögur skiluðu sér nokkuð heillega inn í lögin sjálf og út frá þeim hefur stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs unnið síðan hún var skipuð um mitt síðasta sumar.
Stjórnkerfi garðsins er umfangsmikið og að mínu viti merkileg lýðræðisleg tilraun í sjálfu sér. Í hverju svæðisráði sitja sex fulltrúar, og í stjórn og varastjórn 7 fulltrúar, svo segja má að á fjórða tug manna komi með beinum hætti að stefnumótun og stjórnun garðsins. Kerfið hefur afar marga góða kosti. Það er lýðræðislegt og tryggir vel aðkomu heimamanna og hagsmunaaðila að stjórn og rekstri þjóðgarðsins. Það er mikill styrkur, því hjá þeim liggur gífurleg þekking á landssvæðinu - náttúru þess og staðháttum - og auðvitað miklir hagsmunir einnig.
Ég er líka þeirrar skoðunar að verkefni eins og stofnun stærsta þjóðgarðs í Evrópu þurfi allan þann stuðning sem hann getur fengið. Þann stuðning sækjum við ekki síst heim í hérað. Stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins – eins og lýðræðið yfirleitt – tekur þannig auðvitað tíma og krefst þolinmæði og málamiðlanna af ýmsu tagi, en ég tel það vel þess virði. Mikilvægast er að menn missi ekki sjónar af markmiðum þjóðgarðsins og gefi engan afslátt af þeirri metnaðarfullu hugmyndafræði sem hann byggir á. Um þau markmið tel ég að við í stjórn og svæðisráðum þjóðgarðsins höfum staðið frá því að okkur var falið sl. sumar það hlutverk að undirbúa stofnun, uppbyggingu og rekstur hans.
Samstarf innan yfirstjórnar þjóðgarðsins og samstarf hennar við svæðisráðin fjögur hefur verið afar farsælt. Í þessum hópi hefur ríkt mikil eindrægni, metnaður og óbilandi áhugi. Stjórnin hefur haldið alls tíu formlega fundi frá því í september 2007 og höfum við haft þann háttinn á að funda á svæðunum fjórum til skiptis og nýta stjórnarfundina til samráðs við svæðisráðin á hverjum stað. Einnig hafa varamenn í stjórn setið tvo stjórnarfundi í vetur.
Allt starf stjórnar hefur miðast við að geta stofnað garðinn af metnaði í upphafi sumars og keyrt á fullt í rekstri hans og uppbyggingu. Í dag eru starfræktar gestastofur í Skaftafelli og í Ásbyrgi, og hefur í vor verið unnið að endurbótum á báðum stofum. Ráðist var í arkitektasamkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og er verið að undirbúa byggingu fyrstu nýju gestastofunnar að Skriðuklaustri þar sem framkvæmdir hefjast í sumarlok.
Áætlað er að byggðar verði þrjár gestastofur til viðbótar á næstu árum: á Kirkjubæjarklaustri, við Mývatn og í nágrenni við Höfn í Hornafirði, þ.e.a.s. ein á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins.Allar gestastofurnar munu bera ákveðið minni þjóðgarðsins.. Þá var einnig efnt til samkeppni um einkennismerki garðsins, og unnið að umfangsmiklu kynningarefni, kortum og heimasíðu garðsins.Gerðir hafa verið þjónustusamningar við ferðafélög og fleiri aðila um rekstur landavarðastöðva, en slíkir samningar hafa einnig verið gerðir um rekstur upplýsingamiðstöðva í jaðri þjóðgarðsins.
Þórður Ólafsson var á vormánuðum ráðinn framkvæmdastjóri, og á næstu dögum verður ráðinn ný r þjóðgarðsvörður á Skriðuklaustri á og annar þjóðgarðsvörður á Kirkjubæjarklaustri síðar á árinu. Alls hafa 39 landverðir verið ráðnir til starfa í sumar og hyggst stjórnin efla landvörslu innan þjóðgarðsins verulega á næstu árum.
Ófáar stundir hafa farið í að vinna reglugerðina um þjóðgarðinn sem verður undirrituð af ráðherra hér á eftir og hefur stjórnin haft samráð við mikinn fjölda hagsmunaaðila við gerð hennar. Framundan er gerð verndaráætlunar garðsins, mikilvægasta stjórntækis hans til framtíðar, en tillaga að henni mun koma frá svæðisráðunum, eins og lögin gera ráð fyrir. Loks hafa stjórn og svæðisráð lagt sig fram um að kynna þjóðgarðinn fyrir íbúum á áhrifasvæðum hans og almenningi í landinu með fundum og þátttöku í ráðstefnum og málþingum af ýmsu tagi.
Á næstunni mun þjóðgarðinum berast öflugur liðsauki. Í undirbúningi er stofnun Hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs, Vina Vatnajökuls. Tilgangur samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf um Vatnajökulsþjóðgarð og stuðla með því að þekkingu almennings, innan lands og utan, á þjóðgarðinum og mikilvægi hans fyrir Ísland og umheiminn. Vinir Vatnajökuls verða frjáls félagasamtök einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Unnið hefur verið að undirbúningi stofnunar hollvinasamtakanna um nokkurra mánaða skeið og er stofnfundur fyrirhugaður innan skamms. Litið hefur verið til erlendra fyrirmynda en sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum og víðar eru hollvinasamtök mikilvægur stuðningur við starf þjóðgarða. Stofnað er til Vina Vatnajökuls af miklum metnaði og væntir stjórn þjóðgarðsins mikils af samstarfi við samtökin.
Áður en ég gef ráðherra orðið vil ég þakka öllu því góða fólki sem unnið hefur af áhuga og metnaði að því í langan tíma að gera Vatnajökulsþjóðgarð að veruleika. Samstarfsmönnum mínum í stjórn þjóðgarðsins og svæðisráðum, sveitarstjórnarmönnum, landeigendum og starfsmönnum umhverfisráðuneytisins vil ég þakka sérstaklega fyrir þeirra mikilvæga framtak. Og að lokum vil ég óska okkur öllum, Íslendingum, til hamingju með daginn.
Fáni þjóðgarðsins dreginn að húni við hátíðahöldin í dag.
Birt:
Tilvitnun:
Anna Kristín Ólafsdóttir „Ávarp formanns Vatnajökulsþjóðgarðs“, Náttúran.is: 7. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/07/avarp-formanns-vatnajokulsthjoogaros/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.