Vegna misvísandi frétta um ferðalög umhverfisráðherra í tengslum við björgun hvítabjarnarins á Skaga vill umhverfisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra fór til útlanda í einkaerindum um liðna helgi. Á mánudag hafði ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins samband við umhverfisráðherra og tilkynnti honum um landtöku hvítabjarnar í Skagafirði. Umhverfisráðherra var í stöðugu sambandi við ráðuneytið og Umhverfisstofnun í kjölfarið og hafði meðal annars milligöngu um að koma á samstarfi við dýragarðinn í Kaupmannahöfn um björgun hvítabjarnarins. Umhverfisráðherra kom til Íslands síðdegis þriðjudaginn 17. júní með áætlunarflugi eins og ráð hafði verið fyrir gert. Umhverfisráðuneytið leigði flugvél af flugfélaginu Örnum til að fljúga með umhverfisráðherra og viðkomandi starfsfólk umhverfisráðuneytisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands frá Keflavík til Sauðárkróks. Starfsfólk ráðuneytisins sá m.a. um samskipti við lögreglu, Landhelgisgæslu og fjölmiðla og samskipti við grænlensku heimastjórnina vegna óska um að fá að flytja hvítabjörninn þangað. Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands þurfti að vera á vettvangi ef til þess kæmi að fella þyrfti björninn. Umhverfisráðuneytið greiðir 245.000 kr. fyrir leiguflug með sjö farþega. Flogið var með áætlunarflugi til baka um kvöldið.
Birt:
19. júní 2008
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Vegna frétta um ferðalög umhverfisráðherra“, Náttúran.is: 19. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/19/vegna-fretta-um-feroalog-umhverfisraoherra/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: