Urtaveig (tinktúra) er jurtalyf í vínandalausn (eða ediki). Vínandi leysir betur upp ýmis efni í jurtum en vatn. Urtaveig má laga á marga vegu og reglur um hlutföll og styrkleika vínandans eru mismunandi eftir plöntum. Best er að búa urtaveigina alltaf til á sama hátt nema uppskrift kveði á um annað. Vínandi sem er 45% að styrkleika er nógu sterkur til þess að leysa upp flest virk efni í plöntum og einnig eykur hann geymsluþol lyfjablöndunnar. Urtaveig af þessum styrkleika getur varðveist í mörg ár.

Urtaveig hefur það fram yfir te að jurtirnar nýtast betur, skammtastærðir verða þá mun minni og auk þess má geyma lyfið lengur.

Urtaveig má nota á margvíslegan hátt. Hana má taka inn eins og hún kemur fyrir og einnig má þynna hana með heitu eða köldu vatni. Setja má urtaveig í baðvatn eða blanda henni í smyrsl og áburð til útvortis notkunar. Yfirleitt er urtaveig búin til í hlutföllunum 1:5 þ.e. 100 g af jurtum koma á móti 500 ml af vínanda.

Urtaveig gerð

Setjið 100 g af smátt skornum eða muldum (þurrkuðum) jurtum í ílát með góðu loki. Tvöfaldið skammtinn ef jurtirnar eru ferskar. Hellið 500 ml af vínanda yfir jurtirnar. Oft þarf að þrýsta jurtunum niður til þess að allir hlutir liggi í vínandanum. Lokið ílátinu vel, merkið það og dagsetjið. Geymið ílátið á hlýjum stað í 2-3 vikur og hrærið hægt í því einu sinni á dag. Að þeim tíma liðnum skal sía vökvann í gegnum bómullargrisju og vinda jurtirnar vel til þess að ná öllum vökva úr þeim. Best er að leggja bómullargrisjuna yfir trekt og sía vökvann þannig frá. Ef góð pressa er við höndina er æskilegt að pressa hratið og ná þannig öllum safa úr jurtunum. Geymið urtaveigina í dökkum, vel lokuðum flöskum.

Einnig má búa til urtaveig með því að nota vín, einkum hvítvín, í staðinn fyrir sterkan vínanda. Urtaveigin er blönduð á sama hátt en hún getur orðið mun bragðbetri og getur í sumum tilfellum hentað mun betur, einkum þeim sem hafa viðkvæman maga. Urtveig af víni geymist þó mun skemur.

Birt:
13. apríl 2007
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Urtaveig“, Náttúran.is: 13. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/13/urtaveig/ [Skoðað:22. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. maí 2007

Skilaboð: