Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, hefur nú kveðið upp úr með að ekki verið gefnir út frekari kvótar fyrir hvalveiðar nema að hægt verði að selja kjötið til Japans. Ekki eru miklar líkur á að það verði hægt. Reutersfréttastofan hefur eftir Einari að tilgangslaust sé að gefa út ný veiðileyfi eftir að núverandi fiskveiðiári lýkur um mánaðamótin ef enginn markaður sé fyrir hvalkjötið. Sjá frétt Reuters:

„Hvalveiðiiðnaðurinn verður, eins og annar iðnaður, segir Einar K. Guðfinnsson að beygja sig undir markaðslögmálin. Ef enginn hagnaður er af veiðunum er enginn grundvöllur fyrir frekari hvalveiðum," segir Einar við Reuters.

Einmitt þetta lá ljóst fyrir fyrir löngu síðan enda fékk ráðherrann á sig mikla gagnrýni fyrir að leyfa veiðarnar í fyrrahaust. Þrátt fyrir það var farið af stað með veiðarnar og var íslenskri framleiðslu í útrás og íslenskum ferðaiðnaði ógnað með veiðunum. Whole Foods markaðirnir í Bandaríkjunum tóku t.a.m. niður litlu sætu íslensku fánanana og vildu ekki birta upprunan „Iceland“ hjá vörunum sem þó yfirgáfu ekki hillurnar algerlega.

Það er þó ekki útséð um að veiðar verði teknar upp að nýju enda vill ráðherra halda öllu opnu í þeim efnum. Ef Japanir opna aftur fyrir innfluting á hvalkjöti verða hrefnuveiðimenn og Kristján á Hvali 9 fyrstir til að banka upp á hjá Einari vini sínum.

Myndin er af baksíðumynd á bókinni Furðudýr í íslenskum þjóðsögum „hvalir við Ísland“. Mynd: Guðrún Tryggvadóttir
Birt:
24. ágúst 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvalveiðar aflagðar að sinni“, Náttúran.is: 24. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/24/hvalveiar-aflagar-sinni/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: