Sunnlenska fréttablaðið birti í blaðinu í gær þ. 02.11. grein um álversáætlanir fyrirtækisins Arctus ehf. á Þorlákshöfn. Fyrirtækinu hefur nú þegar verið úthlutuð lóð vestan byggðarinnar í Þorlákshöfn undir svokallaðan „orkugarð“. Í fyrsta áfanga gerir fyrirtækið ráð fyrir að reist verði álver, með 60 þúsund tonna framleiðslugetu á ári, og endurbræðsla sem bræðir ál til frekari vinnslu. Arctus var stofnað árið 2004 en félagið er í eigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar verkfræðings og fleiri aðila. Samkvæmt tímaramma verkefnisins er gert ráð fyrir að umhverfismat liggi fyrir árið 2009 og framkvæmdum við fyrsta áfangann, áðurnefndum 60 þúsund tonna álveri, verði að fullu lokið árið 2012, svo fremi að orkan fáist afhent á þeim tíma.

Álæði hefur sem sagt gripið um sig á Suðurlandi, á svæði sem verður æ þéttbýlla, þar sem frjósöm jörð býður upp á annan og umhverfisvænni orkufrekan iðnað t.a.m. í garðyrkju. Nokkuð sem svæðið hefði fulla burði til, ef málið snýst um að koma orku í lóg, orku sem að sjálfsögðu verður sótt upp á Hellisheiði eða til nýrra virkjana í Þjórsá? OR og Ólafur Áki hafa nú þegar bundist orkumiklum vinarböndum. En áláhugamenn í Þorlákshöfn þurfa að bera slíkar hugmyndir undir íbúa svæðisins sem geta byrjað á að fara í kynnisferð til Reyðarfjarðar og Grundartanga og síðan spurt sig hvort að þetta sé hugmynd sem stenst kröfur þeirra til framtíðar svæðisins og hvort landsmenn styðji slíkar framkvæmdir, því ákvörðun af þessu tagi er aldrei einkamál framkvæmdasvæðisins. Auðvitað er áldraumur nokkurra manna í Þorlákshöfn ekki kominn í gegnum umhverfismat né hafa íbúar svæðisins eða landsmenn aðrir fengið tækifæri til að mynda sér skoðun. Óróinn sem skapast hefur af allt of hröðu undirbúningsferli Kárahnjúkavirkjunar og efnismeðferð allri í kringum þá framkvæmd, ætti þó að hafa kennt fólki að sé sofið á verðinum getur allt skeð. Fáránlegustu hugmyndir verða oft þær sorglegustu ef enginn trúir að þær geti orðið að veruleika.

Sjá umfjöllun um grein Sunnlenska á Mbl.is.


Myndin er af örlitlum krossfisk á steini í brimgarðinum við Þorlákshöfn.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
4. nóvember 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Heitir álver „orkugarður“ á Þorlákshöfnsku?“, Náttúran.is: 4. nóvember 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/orkugardur_torlo/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: