Við umræður á Alþngi þann 12. nóvember s.l. um þá ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar að „... ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- og Vesturlandi.“ lýsti forsætisráðherra því yfir á Alþingi að „... Vissulega þýðir þetta að óbreyttu að ekki verður reist álver í Þorlákshöfn eða nýtt álver á Suðvesturlandi.”

Viðskiptaráðherra, Björgvin Sigurðsson, bætti um betur og sagði að „… ekki verða teknar ákvarðanir um nýjar álverksmiðjur á suður- og suðvesturhluta landsins. ... Ekki verða fleiri ný álver á þessum hluta landsins á næstu árum og missirum, það liggur ljóst fyrir eftir þessa ákvörðun.”

Af yfirlýsingum ráðamanna Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga virðist sem svo að þessar yfirlýsingar forsætis- og viðskiptaráðherra fyrir þremur mánuðum hafi fallið í gleymsku. Á hinn bóginn hafa talsmenn Samfylkingarinnar kosið að tjá sig ekki um fyrirhugað álver í Helguvík þrátt fyrir að ráðamenn fyrirtækisins hyggist hefja framkvæmdir án starfsleyfis, án tilskilinna leyfa til losunar gróðurhúsalofttegunda og án þess að úrskurður umhverfisráðherra um heildstættt mat virkjunar- orkuflutninga og álversframkvæmda liggi fyrir. Að sama skapi liggur enn ekki fyrir loftslagsstefna ríkisstjórnar Íslands. Samfylkingin boðaði nýja umhverfisstefnu fyrir kosningar s.l. vor og kynnti áform um stóriðjustopp þar til fram hefði farið Rammaáætlun um náttúruvernd og sættir náðst um frekari virkjanauppbyggingu. Iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, gengisfelldi þessa stefnu strax eftir kosningar með því að hafna því að afturkalla rannsóknarleyfi í Gjástykki sem forveri hans, Jón Sigurðsson, veitti einungis tveimur dögum fyrir kosningar án logboðinnar aðkomu umhverfisráðuneytisins. Vitaskuld þvert á kosningaloforð síns flokks. Þar með tók Össur ábyrgð á spillilngu Framsóknarflokksins.

Náttúruverndarsamtök Íslands gera þá kröfu til ráðherra og þingmanna Samfylkingarinnar að þeir standi við orð sín og veiti þjóðinni ráðrúm til að meta náttúruverndargildi þeirra svæða sem orkufyrirtækin sækjast eftir að eyðileggja. Jafnframt ber forsætisráðherra skylda til að standa við þau orð sem hann flytur þingi og þjóð.
Birt:
15. febrúar 2008
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Ráðherrar standi við orð sín“, Náttúran.is: 15. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/15/raoherrar-standi-vio-oro-sin/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: