Markaður og sultukeppni í Mosfellsdal
Á grænmetismarkaði í Mosfellsdal, nánar tiltekið við trjáplöntusöluna Mosskóga (keyrt inn Æsustaðarafleggjara) var í dag haldin árviss sultukeppni.
Þegar greinarhöfund bar að garði voru komnar 21 sultukrukka í keppnina og enn var verið að koma með nýjar sultukrukkur á dómaraborðið.
Nöfn eins og Sólskin, Krækiberjahlaup, Rifshlaup, Ástarvikan 2007, Ylfusulta, Smásæla og Tómatasprell voru fagurlega rituð á krukkurnar og dómarar á fullu við að smakka á góðgætinu. Dómararnir Tryggvi Bering, Kikka, Vilborg og Tóti smökkuðu með miklum tilþrifum og veltu fyrir sér hvernig hægt væri að gera upp á milli allra þessara góðu berjamauksafbrigða.
Stemningin á markaðinum var frábær í góða veðrinu og mikið úrval grænmetis, súkkulaðis, háleista, lífrænna safa, rósa og auðvitað heimagerðrar sultu á boðstólum.
Einnig var hægt að fá sér köku og setjast niður í góða veðrinu og njóta ágústssólarinnar.
Úrslitin í sultusamkeppninni urðu þessi:
1. sæti: Björn G. Jónsson - Sólski2. sæti: Sigrún K. Óskarsdóttur - Aðalberjasulta
3. sæti: Birta Jóhannessdóttir - Topplatjill
Efri myndin er af dómurum að störfum og sú neðri af sölumanni með rabbarbara og háleista á boðstólum. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Markaður og sultukeppni í Mosfellsdal“, Náttúran.is: 18. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/18/markaur-og-sultukeppni-mosfellsdal/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 19. september 2010