Eftirfarandi þingsályktunartillaga var samþykkt á Alþingi þ. 10. júní 2010:

Alþingi ályktar að hefja skuli undirbúning eflingar græna hagkerfisins á Íslandi með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Alþingi samþykkir að kjósa níu manna nefnd með fulltrúum þingflokka sem hafi það verkefni að kortleggja sóknarfæri íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar. Nefndin skal m.a. gera tillögur um stjórnvaldsaðgerðir og úrbætur á stoðkerfi atvinnulífsins sem ýtt geti undir vöxt græna hagkerfisins auk þess að leita leiða til að styrkja stöðu sjálfbærrar þróunar í efnahags- og atvinnustefnu þjóðarinnar. Sérstök áhersla verði lögð á að greina hvernig bæta megi alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands á sviði vistvænnar atvinnustarfsemi. Nefndin skal gera tillögur um lagabreytingar er þjóni framangreindum markmiðum og setja mælanleg markmið um fjölgun grænna starfa í íslensku atvinnulífi. Þess verði gætt að samþætta tillögur nefndarinnar við ýmsar áætlanir stjórnvalda sem tengjast atvinnu- og umhverfismálum, svo sem Velferð til framtíðar, Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, 20/20 Sóknaráætlun og Byggðaáætlun.

Nefndin skal skipuð fulltrúum þingflokka og skal hún skila niðurstöðum fyrir 1. mars 2011. Þingflokkar sem ekki eiga kjörinn mann í nefndinni hafa heimild til áheyrnaraðildar. Nefndin getur ráðið sér starfsmann og skal fjárheimilda í því skyni aflað í fjáraukalögum ársins 2010.

Samþykkt á Alþingi 10. júní 2010.

Birt:
14. september 2010
Höfundur:
Alþingi
Tilvitnun:
Alþingi „Þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins“, Náttúran.is: 14. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/14/thingsalyktun-um-eflingu-graena-hagkerfisins/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: