Ballið er byrjað, Toyota tilkynnti að þeir væru að fara að framkvæma prófanir á tengjanlegum tvinnbíl (plug-in hybrid). Toyota hyggst prófa átta mismunandi útfærslur á næstu þremur árum. Um er að ræða Toyota Prius, með tvöfalt stærri rafgeyma, hámarkshraði 100 km/klst á rafmagni og drægni 13 km. Aukin þyngd bílsins vegna stærri metal hydrid rafgeymanna er 100 kg. Ekki nein flugeldasýning en mikilvæg byrjun á framtíðarbílnum. Toyota hefur selt eina milljón Prius tvinnbíla, þar af helminginn í USA. Salan í USA á þessu ári hefur aukist um 70% miðað við sama tímabil 2006.

Þetta nýjasta útspil setur mikla pressu á aðra framleiðendur. GM hefur sett sér það markmið að koma Chevrolet Volt í framleiðslu 2010 en Ford hyggst hefja prófanir á 20 tengjanlegum tvinnbílum á næstunni og stefnir á framleiðslu eftir 5 til 10 ár.

Nokkrir bílaframleiðendur svo sem Toyota, Nissan og Mitsubishi eru að vinna með japönskum rafhlöðuframleiðendum að næstu kynslóðar lithium-ion rafhlöðum sem tvímælalaust má telja að verði allsráðandi í nánustu framtíð.

Það sem ég tel að gerist á næstu þremur árum er að á meðan athyglin er á hinum litla og ódýra Toyota Prius þá mun dótturfyrirtækið, Lexus, selja grimmt af aflmiklum, en ekkert endilega sparneytnum, lúxustvinnbílum og á þeim grundvelli ná forystu á þeim markaði. Þegar tvinntæknin veldur öðrum bílaframleiðendum ómældum kostnaði þá mun Toyota hagnast á öllu saman og fá þar að auki mjög jákvæða kynningu. Ford mun berjast í bökkunum og GM fer á hausinn. Árið 2010 mun Toyota byrja að selja fyrstu tengjanlegu tvinnbílana og þá getum við byrjað á því einstaka verkefni að rafbílavæða Ísland.

Höfundur er vélaverkfræðingur.

Grafík: Signý Kolbeinsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir. ©Náttúran.is

Birt:
3. ágúst 2007
Höfundur:
Einar Einarsson
Tilvitnun:
Einar Einarsson „Toyota kynnir tengjanlegan tvinnbíl “, Náttúran.is: 3. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/02/toyota-kynnir-tengjanlegan-tvinnbl/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. ágúst 2007
breytt: 13. september 2010

Skilaboð: