Hlynur Bárðarson meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ heldur fyrirlestur um meistaraprófsverkefni sitt í dag föstudaginn 6. febrúar kl. 16:30 í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.

Viðfangsefni Hlyns er „Flokkun á íslensku landslagi og fylgni við jarðfræðilega þætti, Icelandic landscape classification and correlation with geological factors.“

Nýlega hefur verið þróuð aðferð við flokkun á íslensku landslagi á Íslandi í tengslum við Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hún byggist á 23 sjónrænum eiginleikum, m.a. grunnlögun, útlínum og formum í landslagi, víðsýni, breytileika í hæð, gróðurþekju og fjölbreytni gróðurs og fjölbreytni í áferð og mynstri. Hér var þessari aðferð beitt á 98 svæði sem valin voru innan kerfisbundins hnitakerfis með það að markmiði að greina og flokka helstu landslagsgerðir á Íslandi með fjölþáttagreiningu (Cluster Analysis og Principal Component Analysis). Fylgni landslags við jarðsögu og jarðfræði var einnig könnuð, bæði með fylkjareikningum (Canonical Correlation) og venjulegum fylgnireikningum.

Niðurstöðurnar benda til þess að 8 meginlandslagsgerðir sé að finna á Íslandi. Þær eru:

  1. Strendur sem ásamt fjörðum greinast frá öðrum flokkum vegna staðsetningar við sjó. Strendur skiptust í tvo undirhópa klettastrendur og flatar sandstrendur.
  2. Firðir sem einkennast af U-laga grunnformi í landinu. Firðir eru aðallega á eldri tertíera hluta landsins þ.e. Vestfjörðum, Miðnorðurlandi og Austfjörðum.
  3. Vel grónir og djúpir U-laga dalir inn á milli hárra fjalla
  4. Grynnri inndalir eru fáliðaðasti flokkurinn og greinast m.a. frá flokki 3 vegna grunnlögunar og minni gróðurs. Inndalir eru aðallega við jaðar miðhálendisins.
  5. Gróið láglendi og heiðalönd sem mynda stærsta flokkurinn.
  6. Grónar sléttur með miklu víðsýni sem einkennast af því að langt er í næstu fjöll eða hæðir og grunnlögun er flöt.
  7. Gróðursnauð og einsleit háslétta með miklu víðsýni og grófri blettastærð.
  8. Gróðursnautt hálendi sem er að mestu leyti eins og í flokki 7 nema á þeim finnst vatn og/eða ár. Í ljós kom sterk fylgni sjónrænna og jarðfræðilegra þátta í íslensku landslagi og fylgni milli tiltekinna breyta og jarðsögulegs aldurs.

Verkefnið var styrkt af Orkusjóði Orkustofnunar, Rannsóknarnámssjóði Rannís og Umhverfisstofnun.

Leiðbeinendur Hlyns eru þau Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Þorvarður Árnason forstöðumaður Háskólaseturs Hafnar í Hornafirði. Prófdómari er Ólafur Arnalds, deildarforseti umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands.

Allir velkomnir!

Myndin er af Ingólfshöfða séð í austurátt. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
6. febrúar 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fyrirlestur um nýja aðferðafræði til flokkunar landslags“, Náttúran.is: 6. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/06/fyrirlestur-um-nyja-aoferoafraeoi-til-flokkunar-la/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. september 2010

Skilaboð: