Fyrirlestur um nýja aðferðafræði til flokkunar landslags
Hlynur Bárðarson meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ heldur fyrirlestur um meistaraprófsverkefni sitt í dag föstudaginn 6. febrúar kl. 16:30 í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.
Viðfangsefni Hlyns er „Flokkun á íslensku landslagi og fylgni við jarðfræðilega þætti, Icelandic landscape classification and correlation with geological factors.“
Nýlega hefur verið þróuð aðferð við flokkun á íslensku landslagi á Íslandi í tengslum við Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hún byggist á 23 sjónrænum eiginleikum, m.a. grunnlögun, útlínum og formum í landslagi, víðsýni, breytileika í hæð, gróðurþekju og fjölbreytni gróðurs og fjölbreytni í áferð og mynstri. Hér var þessari aðferð beitt á 98 svæði sem valin voru innan kerfisbundins hnitakerfis með það að markmiði að greina og flokka helstu landslagsgerðir á Íslandi með fjölþáttagreiningu (Cluster Analysis og Principal Component Analysis). Fylgni landslags við jarðsögu og jarðfræði var einnig könnuð, bæði með fylkjareikningum (Canonical Correlation) og venjulegum fylgnireikningum.Niðurstöðurnar benda til þess að 8 meginlandslagsgerðir sé að finna á Íslandi. Þær eru:
- Strendur sem ásamt fjörðum greinast frá öðrum flokkum vegna staðsetningar við sjó. Strendur skiptust í tvo undirhópa klettastrendur og flatar sandstrendur.
- Firðir sem einkennast af U-laga grunnformi í landinu. Firðir eru aðallega á eldri tertíera hluta landsins þ.e. Vestfjörðum, Miðnorðurlandi og Austfjörðum.
- Vel grónir og djúpir U-laga dalir inn á milli hárra fjalla
- Grynnri inndalir eru fáliðaðasti flokkurinn og greinast m.a. frá flokki 3 vegna grunnlögunar og minni gróðurs. Inndalir eru aðallega við jaðar miðhálendisins.
- Gróið láglendi og heiðalönd sem mynda stærsta flokkurinn.
- Grónar sléttur með miklu víðsýni sem einkennast af því að langt er í næstu fjöll eða hæðir og grunnlögun er flöt.
- Gróðursnauð og einsleit háslétta með miklu víðsýni og grófri blettastærð.
- Gróðursnautt hálendi sem er að mestu leyti eins og í flokki 7 nema á þeim finnst vatn og/eða ár. Í ljós kom sterk fylgni sjónrænna og jarðfræðilegra þátta í íslensku landslagi og fylgni milli tiltekinna breyta og jarðsögulegs aldurs.
Verkefnið var styrkt af Orkusjóði Orkustofnunar, Rannsóknarnámssjóði Rannís og Umhverfisstofnun.
Leiðbeinendur Hlyns eru þau Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Þorvarður Árnason forstöðumaður Háskólaseturs Hafnar í Hornafirði. Prófdómari er Ólafur Arnalds, deildarforseti umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands.
Allir velkomnir!
Myndin er af Ingólfshöfða séð í austurátt. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fyrirlestur um nýja aðferðafræði til flokkunar landslags“, Náttúran.is: 6. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/06/fyrirlestur-um-nyja-aoferoafraeoi-til-flokkunar-la/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. september 2010