Eurpean Green CapitalBorgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að Reykjavíkurborg sæki um tilnefningu sem Græna borgin í Evrópu (European Green Capital) árið 2012 eða 2013. Evrópusambandið útnefnir árlega Grænu borgina í Evrópu í þeim tilgangi að vekja athygli á mikilvægi umhverfismála í borgum.

Viðurkenningin er ætluð sem hvatning til borga um að skapa gott og heilnæmt umhverfi fyrir íbúa sína. Fegurð borgarstæðis Reykjavíkur, notkun á endurnýjanlegri orku og nýsköpun í orkumálum fengi jafnframt aukna alþjóðlega athygli. Umsókn Reykjavíkur um tilnefninguna er ein af tillögum í Sóknaráætlun fyrir Reykjavíkurborg.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, telur að Reykjavíkurborg geti haft alla burði til að hljóta útnefninguna. „Ötullega hefur verið unnið að umhverfismálum í borginni undanfarin ár og á nýafstöðnu Hugmyndaþingi mátti glögglega sjá mikinn áhuga íbúa á þessum málaflokki,“ segir hún. „Reykjavíkurborg hefur verið að stíga metnaðarfull græn skref á þessu kjörtímabili, sameinað umhverfis- og samgöngusvið og nýlega samþykkt loftlags- og loftgæðastefnu fyrst íslenskra sveitarfélaga. Þá eru unnið að fleiri spennandi verkefnum svo sem hjólreiðaáætlun og rafbílavæðingu.“

Viðurkenningin er aðeins veitt borgum sem hafa sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum, fylgt þeim vel eftir og verið öðrum góð fyrirmynd. Borgir sem helst koma til greina eru metnar út frá nokkrum mælikvörðum, m.a. loftlagsmálum, samgöngum, grænum svæðum, loftgæðum, hávaða, úrgangsstjórnun og vatnsnotkun. Stokkhólmur mun fyrst borga bera titilinn Græn borg í Evrópu fyrir árið 2010 og Hamborg verður Græna borgin árið 2011. nánar

Birt:
Jan. 9, 2010
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Reykjavíkurborg sækist eftir því að vera tilnefnd Græna borgin í Evrópu“, Náttúran.is: Jan. 9, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/18/reykjavikurborg-saekist-eftir-thvi-ad-vera-tilnefn/ [Skoðað:Sept. 28, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 18, 2010
breytt: Sept. 9, 2010

Messages: