46.

Atli: Þetta eru gömul ríkismanna ráð. Þeir vilja að almúginn þrælki og vinni baki brotnu og bæti jarðir fyrir ekkert. Hvað gefa þeir í staðinn?

Bóndi: Satt er það að sá verður að ráða sem ríkið hefur meira. Og eru þau fyrirvöld best, sem eru vitur og góðgjörn en þar með stjórnsöm. Svo vill hver faðir að börn sín erfiði svo þau hafi nóg brauð.

Væri á þig skilið að vinna fyrir landsdrottin, í hans eins þarfir, og yfirgefa á meðan þitt eigið gagn, þá myndir þú kurra og verða þó nauðugur að hlýða honum. Nú skilur kóngurinn á þig 1) svo föðurlega að þú rækir þitt eigið gagn og gefur hann þér ágóða þíns erfiðis svo lengi sem þau eða þú endast til að búa á þeirri jörð, sem þú hefur ræktað.1) Nú setur kóngurinn þér þann skilmála.

Við þessa rækt batnar hver jörð en þó hækka ekki landskuldir og því er ábúandans allt gagnið af hans sveita. Dugi hann sér vel að, þá vill kóngur gefa honum kaup fyrir það sem hann ræktar betur en það skylduverk, sem honum er upp á lagt, og hefur bóndinn eins notin sjálfur af verki sínu þar fyrir. Þakka skyldir þú Guði að þú býrð við svo góða kosti og svo mikið frelsi. Ólíkt er það kjörum þeirra sem fastir eru á fótum við jarðir, maður eftir mann, og verða að erfiða fyrir húsbóndann allt hvað hann vill og þarf, hafa hvorki þar fyrir fæði né laun en þola þó straff ef brestur á verk eða misvinnst. 1)
1) Með þeim ummælum er m.a. bent til átthagafjötra í Danmörku, sbr. lög um vornedskab og hoveri.

47.

Atli: Það læt eg mér skiljast að kóngurinn vilji oss öllum best og gott eitt kemur frá honum. En eg verð að sjá um minn hag sem best. Eg veit annan mann, sem vill hálfa Konungsstaði á móti mér. Hann er góður vinnumaður og mun hafa að sér sem mest. Því vil ég verða fyrri til og varna honum að komast þar inn. Eg vil hafa sem mest undir til slægna svo eg megi velja út því þó eg geti hvorki girt um það né ræktað, þá get eg heldur varið öðrum að ná þar til með því móti.

Bóndi: Eg hefi sagt þér að ekkert gagn væri af þér að hafa meira tún en þú gætir ræktað því eg merki að fyrir gagni þínu gengst þú mest. Þó er hér annað í efni, sem enn er meira vert.

1. Guð hefur gjört allan heiminn til eignar og ábúðar öllum ættkvíslum manna (Act: 17, 26; Psálm. 115,16). Hafa þær ættkvíslir tekið við þessari fasteign að réttum erfðum forföður sinn, Adam, en hann þág í öndverðu af sjálfum Guði. Síðan hafa þessar eignir skipts í sundur jafnan smærra og smærra, eftir því sem sá ættspringur æxlaðist, og hefur Guðs forsjón svo fyrir séð að heimurinn vinnst öllum að fullu og veröldin hefur nóg framfæri fyrir alla þá sem þar inni búa. Ef að enginn spillir fyrir öðrum og hver léti sér nægja að það sem nóg er þá væru og allir menn sælir. Em þó maður girnist meira er hann engu sælli en áður og honum ekki gefið það frjálst. Því Guð hefur engum manni gefið meira en hann getur nýtt sér og ekki fyrr en hann fær sér það notkað, allra síst má hann banna það öðrum. Já, þótt hann kæmi að eyðilandi eður hitti á fé, sem enginn finnst eigandi að, þá eignast hann samt aldrei meira af því en hann getur fært sér í nyt. Hitt sem þar umfram er eignast sá sem notið getur. Að varna þess öðrum er ónáttúrulegt, ósæmilegt og ómannlegt. Hundur er það náttúrlegt og það er þeirra siður að verja örðum hundum mat þegar þeir eru sjálfir svo fullir að þeir geta ekki meiru torgað. Hefðu allir menn þann þanka að þeir þyrftu ekki að rækta það land, sem þeir búa á, heldur vildu hafa mikið að velja úr af því sem náttúran gefur sjálfkrafa, þá yrði að drepa niður meira en helming þeirra sem löndin byggja. Því þeim væri þá framfærnis vant og þeir einir mundu eftir lifa, sem illgjarnastir eru og öðrum verst vilja. 1).
1) Kenningin að einungis hinir hæfustu muni þá lifa af tók fyrst í rasjónalisma 18. aldar á sig þetta machíavellíska form, losað undan trúnni að Forsjónin banni það. Guð skammti, svo sem B.H. segir prestlega, gegn hinu.

Ekkert er þó fjarlægara Guðs vilja en þetta. Hann býður sparsemi og bindindi, hann býður erfiði og ánægju, hann býður mannelsku og góðgirni. Já, hann býður oss að gefa þeim mönnum sem þurfa, nokkuð af því sem oss hefur réttilega þénast með vorum sveita.

2. Kóngur er lands faðir og þar með allra þeirra sem í því búa. Það er gagn og gleði hans að eiga sem flesta undirsáta og vill hann þá alla sæla. Hann ann okkur eins og börnum sínum, án manngreinar, og því fellir hann réttvísa reiði á þá sem öðrum misunna góðs, allra helst þess sem þeir geta ei sjálfir notið. Landslögin skipa þér líka að vinna upp allar engjar (Réttarbót Eiríks kóngs). 2) Svo skal leiguliði hjón hafa að hann faí unnið upp engjar allar, ella bæti landsdrottni skaða þann allan, sem menn meta að land spillist af því, utan þeir skilji öðruvísi.
2) Jónsbók (1904), 281.

Sjáðu nú til Atli minn, hvað ómannlegur þanki það er, sem þú komst upp með, hann stríðir í móti Guðs vilja, kóngsins vilja og hans boði nú í fororðningunni, hann spillir föðurlandsins farsæld. Þó er hann þeim verstur, sem við hann heldur. Þú átt að reikna þér það mestan sóma í þínu bóndastandi, og halda þig þá ríkan, er þú hefur ræktað svo vel lítið land að þú lifir sæll af því. En hitt skyldi þér inndæli vera að vita granna þinn lifa sælan hjá þér, á þeim hluta jarðarinnar sem þú getur án verið og ekki ræktað. Megið þið í mörgu styrkja hvorn annan svo báðum vegni þá betur. Og nái tún ykkar saman gjöri þið einn túngarð, þið þurfið færri hjú og allir útvegir falla ykkur hægara.

48.

Atli: Ef veit þó margan góðan bónda og gamlan, sem fylgt hefur þessari minni meiningu alla ævi sína, verið þó ólastaður og haft jafnan nóg.

Bóndi: Það er illa farið að þú veist það, fyrst það hneykslar þig. Þó er það enn verra að slíkir séu margir. Þegar það er sem best útlagt fyrir þeim þá verður þeirra einkaafsökun þessi: Einhver óvitur maður og mannhatari hefur sagt þeim það ungum og máske að sá hafi verið faðir þeirra. Síðan hafa þeir aldrei brúkað svo mikla athugasemi að þeir kynnu að vitkast og sjá hvort þetta væri satt eður eigi. Þó hafa þeir afhent börnum sínum og hjúum þessa síða erfð og aflafé, heimsku og misunnan og með þeim máldaga ertu orðinn eigandi þessarar meiningar; því er þér sárt að missa hana.

49.

Atli: Þú mátt lasta þess meining sem þú villt. Flest eru þó fornmæli sönn og þar á meðal þetta: Betra er að jörð beri mann yfirmegna en maður jörðina.

Bóndi: Ef þú afsakar með fornmælanafninu alla málshætti og orðatiltæki fávísra manna, sem þeir hafa heyrt af forfeðrum sínum og öðrum, sem þeim vori ekki hyggnari, þá verður hin eftirkomandi öld arfgeng til allrar heimsku, sem upp kann að finnast. En þessi þín meining hefur engan heiður af fyrnsku sinni. Því hún er eigi gömul heldur jafnaldra ómennsku, athuga- og atorkuleysi hinna seinni manna og var hún ekki getin í nokkurs manns höfði þegar forfeður vorir máttu best í þessu landi og það var þó fjölbyggðast. Allur fjöldi eyðikota, hverra rústir sýna sig næsta því í hvers manns landeign, sannar það að fornmenn voru annars sinnis. Þau mörgu eyðikot kingum flesta stórbæi sýna það að höfðingjar vildu ekkert láta ónýtast af landeign sinni heldur að sem flestir fátækir gætu bjargast á þeirra lóð. Var þó höfðingjum langtum meiri afsökun þó þeir legðu mikið land undir bú sitt en öðrum minni háttar mönnum, sem ekki höfðu svo marga að annast.

Hvað aðrað þjóðir hafa mein um þetta í fornöld má ráða af því sem Columella skrifar (Libr. I Kap. 3) að karthaginiskir, skynsamasta þjóð Afríku, hafi svo sagt að akurmaður skyldi bera yfirmegna akurinn en ekki akur akurmanninn. Því geti hann ekki dugað akrinum þá sé það hans skaði og lítill akur vel ræktaður gjöri meira gagn en annar stærri illa ræktaður. Gellius segir (Libr. 7. Kap.3) að Rómverjar hafi sett þau lög að kolonistar (ný lendubúar) mættu ekki eiga meira en 5 jugera. Og nærri því 500 árum fyrir Kristí fæðing, þegar Róm hafði ei staðið í meira en 267 ár, lögleiddi Spurius Cassius með Rómverjum að allir akrar skyldu skiptast og enginn mætti meira akurland hafa en 7 jugera, hvað göfugur og mikils háttar maður sem hann væri.1) Nú var jugerum 240 fóta langt, 120 fóta breitt, það er 28.800 kvaðratfætur, en ummáls 720 fætur, 360 álna, 120 faðma, eins og vor eyrisvöllur.

50.

Atli: Fornmenn hér á landi höfðu víða afgirt engi úti um haga og stundum á öðrum jörðum. Þar fyrir byggðu þeir hjáleigukot heima hjá sér.

Bóndi: Það var satt. Gjörðu það líka þegar þú hefur fyrst fengið vel ræktað heimatún og missir því ekki mikið af beitarlandinu fyrir það. Því undir þínum engisvegg færð þú bæði skjól og meira gras en áður fyrir peninginn. Þó munu þér aðrar fornmannareglur hagkvæmari en þessi. Á meðan þú ert einvirki er þér nær að rækta vel heima hjá þér. Þú veist af fúamýrinni í Konungstaðalandi, sem engri skepnu er fær. Hún er tvöfalt stærri en bæjartún þitt, hún er þar rétt nærri og er að henni ekkert gagn vegna þess að smámsaman hefur safnast aur, mosi og slþ í lækinn, sem úr henni rann þangað til hans farvegur er orðinn jafnhát holtinu í kringum mýrina, sem áður mun hafa verið góð slægja. Nú þarf að rífa upp þennan farveg þangað til hann er orðinn svo djúpur sem botninn í mýrinni. Sé hún síðan stunginn vel upp og ræktuð má hún verða besta tún. Og þvílíkt mýrarpetti kann granni þinn að rækta líka fyrir sig og missir hvorugur ykkar fyrir það því þess háttar fúamýrar eru víða og flestar orðnar gagnlausar með sama móti sem eg sagði um þessa mýri.
1) En patricíar í Róm þoldu ekki slík lög og létu sakir þeirra (og vinsældar) taka hann Cassisus af lífi 486 f. Kr.og höfnuðu lögunum
.

Atli* er eitt af ritunum í Riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og fæst hér á Náttúrumarkaði.

*Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn helst um jarðar- og kvikfjárrækt aðferð og ágóða með andsvari gamals bónda. Samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga, einkanlega þá sem reisa bú á eyðijörð

Birt:
1. september 2010
Tilvitnun:
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal „Atli vill fylgja dæmum annarra bænda - Atli X“, Náttúran.is: 1. september 2010 URL: http://nature.is/d/2009/08/31/atli-vill-fylgja-daemum-annarra-baenda-atli-x/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. ágúst 2009
breytt: 1. september 2010

Skilaboð: