Stjórnlagaþing mun koma saman í febrúar næstkomandi. Í lögum segir að það skuli sérstaklega fjalla um átta þætti, þar á meðal umhverfismál og eignarhald náttúruauðlinda. Umræða um eignarhald náttúruauðlinda verður vafalaust fyrirferðarmikil en hitt er ekki síður mikilvægt að þingið fjalli vandlega um sérstakt umhverfisverndarákvæði.

Fjöldi fólks hefur hvatt til þess að umhverfisverndarákvæði verði bætt við stjórnarskrána. Stjórnmálamenn hafa mælst til þess, eins og Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra. Reynsla hennar innan stjórnsýslunnar varð til þess að hún áréttaði opinberlega mikilvægi þess að í stjórnarskrá væri umhverfiskafli svo að náttúra og umhverfi nytu þar verndar eins og atvinnufrelsi og eignarréttur. Umhverfisverndarsamtök hafa tekið í sama streng. Aðalfundur Landverndar 2004 beindi því til stjórnvalda að við endurskoðun stjórnarskrár yrði sett inn ákvæði um umhverfisvernd og þáverandi stjórnarskrárnefnd var send tillaga að slíku ákvæði árið 2005. Í greinargerð með tillögunni sagði að gjarnan væri vísað til atvinnufrelsis- og eignarréttarákvæða stjórnarskrár við meðferð opinberra mála. Ákvæðin gætu ein og sér leitt til niðurstöðu sem spillti náttúru og umhverfi. Því væri rík þörf fyrir umhverfisverndarákvæði.

Fræðimenn hafa fjallað um áhrif umhverfisverndarákvæðis í stjórnarskrám. Ber þar helst að nefna Aðalheiði Jóhannsdóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Í grein í Úlfljóti árið 2005 segir hún að umhverfisverndarákvæði gæti tryggt meiri vandvirkni og vandaðri rökstuðning ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið. Aðalheiður taldi ekki óhugsandi að almenningur, félög eða stofnanir gætu byggt kröfur um aukna umhverfisvernd á slíku ákvæði. Að minnsta kosti yrðu sjónarmið umhverfisverndar jafnrétthá sjónarmiðum atvinnufrelsis og verndar eignarréttinda.

Ákvæði sem þetta myndi ekki binda enda á átök um umhverfisvernd en yrði engu að síður mikið framfaraskref. Það er því full þörf á að áhugafólk um umhverfisvernd taki höndum saman í aðdraganda þjóðfundar og stjórnlagaþings og stuðli að því að umhverfisverndarákvæði verði bætt við stjórnarskrána, t.d. með því að semja drög að slíku ákvæði og kynna fyrir fulltrúum á stjórnlagaþingi og þjóðfundi. Einnig er full ástæða til að hvetja umhverfisverndarsinna til að bjóða sig fram til stjórnlagaþingsins og vinna þar tillögu um umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá brautargengi.

Myndin er af Guðmundi Herði Guðmundssyni, umhverfisfræðingi.

Birt:
16. september 2010
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Umhverfisvernd í stjórnarskrá“, Náttúran.is: 16. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/16/umhverfisvernd-i-stjornarskra/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: