Laugardaginn 11. september kl. 14.00 gefst áhugafólki á öllum aldri tækifæri til að taka þátt í sultukeppni með afurðum úr eigin garði.

Í sumar hefur eldhúsgarðurinn við Norræna húsið vaxið og dafnað í sumarblíðunni. Garðurinn er matjurtagarður Norræna hússins og veitingahússins Dill Restaurant. Nú nálgast haustið og þá er mikilvægt að unnið sé úr uppskerunni og hún borin á borð. Að því tilefni býður Norræna húsið til uppskeruhátíðar laugardaginn 11. sept. kl. 14.00. Gestum verður boðið að smakka á uppskerunni t.d. fjórum tegundum af íslenskum kartöflum og ýmsum káltegundum. Þá verður keppt í sultugerð og eru ungnir sem aldnir hvattir til þáttöku.

Leikreglur eru einfaldar: Keppt er í tveimur sultutegendum, súrri og sætri. Hver keppandi getur skilað inn eins mörgum sultutegundum og hann vill. Skila skal sultunni í Norræna húsið í síðasta lagi kl. 12.00 þann 11. september í íláti merktu nafni, heimilisfangi og/eða netfangi keppandans á botni ílátsins.

Góð verðlaun í boði. Kynnir og stjórnandi er danski matfræðingurinn Mads Holm. Dómari er meistarakokkur veitingahússins Dill Restaurant í Norræna húsinu, Gunnar Karl Gíslason. Tónlist og skemmtun annast Felix Bergsson leikari og söngvari.

Birt:
Sept. 10, 2010
Höfundur:
Norræna húsið
Tilvitnun:
Norræna húsið „Uppskeruhátíð og sultukeppni fyrir fjölskylduna“, Náttúran.is: Sept. 10, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/10/uppskeruhatid-og-sultukeppni-fyrir-fjolskylduna/ [Skoðað:April 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: