ÞIngmenn Sjálfstæðisflokks á móti stækkun Friðlandsins í Þjórsárverum
Upphlaup Sjálfstæðisflokksins
Um árabil hefur ríkt víðtæk samstaða um að stækka beri Friðlandið í Þjórsárverum. Í niðurstöðum Rammaáætlunar, faghóps 1 um Náttúru og menningarminjar, segir:
Það var mat hópsins að nokkur svæði, einkum vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, Torfajökulssvæðið/Friðland að fjallabaki, Þjórsárver, syðri hluti gosbeltisins við Skaftá/Langasjó/Tungnaá, Vonarskarð og Markarfljót væru gríðarlega verðmæt. Vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði er líka verðmætt á hálendi en einnig eru miklir lífríkishagsmunir á láglendi og merkar menningarminjar.
Öll þessi svæði ber að setja í verndarflokk og friðlýsa.
Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna harðlega upphlaup þingmanna Sjálfstæðisflokksins um myndun miðlunarlóns syðst í Þjórsárerum. Vafalaust helgast þetta upphlaup af því að enn skortir mikið á að unnt verði að afla orku fyrir eitt helsta gæluverkefni flokksins; að reisa álver í Helguvík.
Það er ófrávíkjanleg krafa Náttúruverndarsamtaka Íslands að Friðlandið í Þjórsárverum verði einnig stækkað til suðurs og að tryggt verði að Norðlingaölduveita sé úr sögunni. Orð Morgunblaðsins frá 17. janúar 2006* um að það sé „kominn tími til að taka af skarið um framtíð Þjórsárvera“ og ríkisstjórn og Alþingi eigi „að kveða upp úr um að þar verði ekki ráðizt í neinar framkvæmdir“ eiga enn við.
*Ekki er hægt að tengja á fréttina þar sem óleyfilegt er að tengja á fréttir Morgunblaðsins.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „ÞIngmenn Sjálfstæðisflokks á móti stækkun Friðlandsins í Þjórsárverum“, Náttúran.is: 17. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/17/thingmenn-sjalfstaedisflokks-moti-staekkun-fridlan/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.