Árið 1999 fengu átta fyrirtæki og stofnanir fimm ráðuneyta styrk frá Rannís til að búa til frumgerð að samræmdum gagnagrunni um náttúru Íslands og var frumgerð skilað í lok árs 2004. Undir forystu Vatnamælinga fékkst styrkur frá stjórnvöldum og mótframlag frá Orkustofnun til loka árs 2008 til þess að halda áfram að þróa kerfið og efla samstarf stofnana sem búa yfir gögnum um náttúrufar.

Verkefnið sjálft hefur fengið vinnuheitið Náttúruvefsjá og er kerfi til innskráningar, utanumhalds og miðlunar gagna um náttúru Íslands. Kerfið vinnur úr fjölbreyttum gögnum um eðli íslenskrar náttúru á landi, sjó og vatni aðgengileg á vefnum, þar sem leitast er við að höfða bæði til þarfa almennings og sérfræðinga. Til þess að auðvelda aðkomu sérfræðinga og eigenda gagna var hannað og forritað sérstakt innskráningarkerfi sem auðveldar skráningu og samræmingu gagna, en Náttúruvefsjá gefur einnig kost á skráningu og miðlun annarra þátta s.s. lýsigagna, fróðleiks, tengla og ljósmynda. Hægt er að setja inn og skoða ólík gögn, þ.m.t. punkta, línur, fleka, fjarkönnunargögn, svo sem gervitunglagögn og loftmyndir, og tímaháðar landfræðilegar upplýsingar svo sem kort af veður- og vatnafari.

Náttúruvefsjá dregur fram gögn sem annars kæmu ekki fyrir sjónir notenda og vísindamenn fá vettvang til þess að skila niðurstöðum rannsóknarverkefna og gera þau sýnileg. Einnig fær almenningur og skólafólk möguleika á að skoða náttúrufarsupplýsingar og upplýsingar um auðlindir landsins. Margir sérfræðingar frá ýmsum stofnunum hafa komið að þessu verkefni og hefur þessi vettvangur gefið tækifæri til að hittast og ræða um gögn og framsetningu. Einnig hefur hér myndast tækifæri til þess að innleiða staðla fyrir lýsigögn og framsetningu gagna.

Náttúruvefsjá er nú komin í prófanir þar sem verið er að setja inn ýmiskonar gögn og fróðleik frá mörgum aðilum. Reiknað er með að vefsjáin verði komin í gagnið í lok ársins 2008. Skoða vefsjána.

Birt:
2. september 2008
Höfundur:
Vatnamælingar
Uppruni:
Vatnamælingar
Tilvitnun:
Vatnamælingar „Náttúruvefsjá“, Náttúran.is: 2. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/02/natturuvefsja/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: