Í vetur hefur mikið verið rætt um stórfellda hækkun áburðarverðs sem er nátengd hækkun orkuverðs í heiminum. Önnur aðföng á borð við ýmis eiturefni (varnarefni), sem tengjast ræktun ýmissa nytjajurta í hefðbundnum búskap, eru einnig að hækka í verði en framleiðsla þeirra er einnig mjög orkufrek.

Þá eru mótvægisaðgerðir vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda farnar að koma fram og munu gera það í æ ríkari mæli á komandi árum, t.d. í sambandi við alla flutningastarfsemi. Farið er að taka umhverfiskostnað inn í myndina og ljóst að við landbúnaði hér sem annars staðar blasa ný viðhorf og neytendur þurfa líka að átta sig á því að matvælaverð getur ekki haldið áfram að lækka. Reyndar hlýtur það að hækka af framangreindum ástæðum og einnig vegna aukinnar eftirspurnar, einkum frá stórþjóðum í Asíu, en síðast og ekki síst vegna ræktunar nytjajurta á borð við maís til framleiðslu á lífeldsneyti. Með öðrum orðum þá fer í hönd vaxandi samkeppni á milli orkuframleiðslu og matvælaframleiðslu og til að gera ástandið enn óhagstæðara bændum eru risavaxin fjölþjóðafyrirtæki að reyna að ná tökum á öllum þáttum landbúnaðar þannig að í uppsiglingu er ný heimsvaldastefna í fæðuframleiðslu og dreifingu matvæla.

Þessi breyttu viðhorf kalla á nýja hugsun sem tengist mjög umhverfisvernd og nú þarf að horfa til lengri tíma en oftast hefur verið gert. Aftur er komin upp umræða um matvælaöryggi, heimaöflun o.fl. sem harðir markaðshyggjumenn hafa gert grín að um árabil en þeir eru vonandi að byrja að átta sig á því að verðbréf verða ekki étin og hin ósjálfbæru borgasamfélög geta lent í vaxandi efnahags- og félagslegum vandamálum á komandi árum. Hér á Íslandi er það ekki gefið að á þessari öld verði hitastigið líkt og það er nú í Skotland því að loftslagsbreytingar gætu hugsanlega orðið óhagstæðari, sérstaklega ef truflun yrði á rennsli Golfstraumsins, líkt og tilgátur hafa verið um. Þetta skapar töluverða óvissu en ég reikna með að sú skoðun verði áfram ríkjandi hér á landi að landbúnaðurinn hafi veigamiklu hlutverki að gegna og jafnframt að afkoma bænda þurfi að vera viðunandi til að sveitabyggð haldist í landinu.

Nú í vetur, eftir að fréttir bárust af stórfelldri hækkun áburðarverðs í heiminum og skömmtun áburðar í Noregi, hefur umræðan um eflingu lífræns landbúnaðar tekið á sig nýja mynd. Þótt þessi þróun sé skammt á veg komin hér á landi er hægt að taka mið af reynsluþekkingu nokkurs hóps íslenskra bænda sem stunda lífrænan búskap og eru því ekki háðir kaupum á tilbúnum áburði og eiturefnum. Hér sem annars staðar í heiminum hefur lífrænn landbúnaður verið að öðlast aukið vægi og hann er nú orðinn vænlegri valkostur, a.m.k. á sumum jörðum, en hann var fyrir fáeinum árum. Hvað varðar orkusparnað og mótvægisaðgerðir gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda hefur lífrænn landbúnaður ótvíræða kosti umfram hinn hefðbundna, efnavædda landbúnað. Þar við bætist að mikil gróska er í eftirspurn og markaði fyrir lífrænt vottaðar vörur og hér á landi svarar framboð ekki eftirspurn, t.d. í grænmeti og mjólk.

Ég tel brýnt að í ljósi þess ástands sem er að skapast í hefðbundnum landbúnaði verði efling lífræns landbúnaðar hér á landi tekin fastari tökum. Sérstaklega þarf að huga að áframhaldandi þróun grunný átta sem eru opinber stefnumótun, aðlögunarstuðningur, rannsóknir, fræðsla, leiðbeiningar og afurðavinnsla. Nú kemur sér vel að byggð hefur verið upp innlend vottunarþjónusta með viðurkenningu ESB sem er í stöðugri þróun. Það er engin nauðsyn að stilla lífrænum landbúnaði upp á móti þeim hefðbundna. Lífrænn landbúnaður er einn af vaxtarsprotum landbúnaðar og getur hefðbundinn landbúnaður horft til hans um ýmsar lausnir. Lífrænir bændur eru því ekki sértrúarsöfnuður, heldur frumkvöðlar í atvinnugreininni. Sú þróun fær nú aukið vægi víða um lönd með hjálp neytenda og ekki er seinna vænna að taka betur til hendinni hér á landi. Þeim sem vilja kynna sér stöðu lífræns landbúnaðar er bent á skýrsluna Lífræn framleiðsla – vannýtt tækifæri í byggðþróun.

Myndin er af grænkálsakri í Skaftholti en þar fer fram lífrænn búskapur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

 

 

Birt:
20. mars 2008
Tilvitnun:
Ólafur R. Dýrmundsson „Lífræn ræktun er liður í æskilegri þróun landbúnaðar“, Náttúran.is: 20. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/20/liraen-raektur-er-liour-i-aeskilegri-throun-landbu/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. apríl 2009

Skilaboð: