Á leiðinni um landið er fjöldi safna sem fróðlegt og skemmtilegt er að sjá í fríinu*. Eitt þeirra er Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi en meginý ema sýninganna sem settar eru upp í safninu er „þráður“ en þráðurinn er grunnur handíða og tenging sögunnar, þ.e. fortíðar við samtímann.

Sumarsýning safnsins nefnist Hring eftir hring en sýningin er samvinnuverkefni Handverks og hönnunar og Heimilisiðnaðarsafnsins. Listakonurnar Helga Pálina Brynjólfsdóttir, Kristveig Halldórsdóttir og Rósa Helgadóttir sýna þar verk sín. Verkin á sýningunni hafa öll beina skírskotun til Halldóru Bjarnadóttur og Heimilisiðnaðarsafnsins og voru unnin sérstaklega fyrir sýninguna. Sýningin stendur til 31. ágúst og er opin alla daga frá kl. 10:00 til 17:00.

Halldórustofa er deild innan Heimilisiðnaðarsafnsins. Hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur (1873-1981) sem var þjóðkunn kona. Hún var heimilisráðunautur Búnaðarfélags Íslands, gaf út ársritið Hlín um 44 ára skeið og stofnaði og rak Tóvinnuskólann á Svalbarði í Suður-Þingeyjarsýslu. Halldóra starfaði ötullega að félagsmálum kvenna og kynnti menningu þeirra. Hún safnaði margskonar vefnaðar- og prjónlesmynstrum sem og ýmsum smámunum á ferðum sínum um landið. 

Sjá Heimilisiðnaðarsafnið hér á Græna kortinu.

*Öll söfn á landinu finnur þú á Græna Íslandskortinu undir Menningu en þar eru söfn flokkuð eftir áherslusviðum s.s. Safn, List, Menningarsetur, Safnfræðileg sérkenni, Íslenskir þjóðhættir.

Birt:
30. júní 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hring eftir hring á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi“, Náttúran.is: 30. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/30/hring-eftir-hring-heimilisionaoarsafninu-blonduosi/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: