Rannsóknir í sátt við umhverfið
Mikilvægt er að taka tillit til umhverfisins við rannsóknir og kennslu úti í náttúrunni. En hvernig er hægt að samþætta umhverfisvernd, rannsóknir og kennslu?
Á árinu 2004 var hleypt af stokkunum verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um það hvernig best mætti tryggja að tillit verði tekið til umhverfissjónarmiða við rannsóknir og kennslu á háskólastigi á heimsskautssvæðum Norðurlanda, Grænlandi, Íslandi og Svalbarða. Í verkefnahópnum voru fulltrúar stofnana og rannsóknaraðila frá Noregi, Danmörku og Íslandi og hélt hann m.a. fundi með helstu rannsóknaraðilum og leyfisveitendum í viðkomandi löndum. Það er álit hópsins að ef tekið verður markvisst á málunum verði unnt að draga verulega úr umhverfisröskun vegna rannsókna og kennslu á Grænlandi, Íslandi og Svalbarða og um leið auka gæði rannsókna- og kennslustarfs.
Á morgun þriðjudaginn 25. september munu Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisfulltrúi Landsvirkjunar og Sigurrós Friðriksdóttir, starfsmaður Umhverfisstofnunar kynna niðurstöður vinnuhópsins og þeim aðgerðum sem hann leggur til og beinast að yfirvöldum, fjármögnunaraðilum, rannsóknar- og menntastofnunum og vísindamönnum. Fyrirlesturinn verður haldinn í húsakynnum Umhverfisstofnunar að Suðurlandsbraut 24, 5. hæð, kl. 15.00. og er opinn öllum.
Í skýrslunni Forskning uten spor: Integrering av miljøhensyn í forsknings- og utdannelsessektoren, Grönland, Island og Svalbard er greint frá þeim helstu vandamálum sem ýmsir aðilar standa frammi fyrir þegar kemur að vettvangsrannsóknum sem hafa bein áhrif á náttúruna. Einnig eru tilgreindar mögulegar aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum rannsókna. Skýrsluna má finna á slóðinni http://www.norden.org/pub/sk/showpub.asp?pubnr=2005:547).
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Rannsóknir í sátt við umhverfið“, Náttúran.is: 24. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/24/rannsknir-stt-vi-umhverfi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.