Blaðrar Blaðið bara?
Í greininni kemur fram að Ósk Vilhjálmsdóttir fari fyrir nefnd innan Framtíðarlandsins, sem vinni að undirbúningi framboðs til Alþingiskosninga í vor. Einnig kemur fram að Ósk, Andri Snær Magnason rithöfundur, Ómar Ragnarsson fréttamaður og náttúruverndargúrú, Hjálmar Sveinsson útvarpsmaður og Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður séu þar hugsanlegir framboðskandídatar. Eins og haft er eftir Jakobi Frímann þá er of snemmt að spekúlera í hverjir verði í framboði fyrir félagið ef af því verði. Andri Snær staðfestir í greininni ekki né útilokar nokkuð.
Greinarhöfundur hefur skrifað Ósk og fleirum innan Framtíðarlandsins og beðið um staðfestingu á þessari umfjöllunum Blaðsins, það er, hvort í raun sé verið að gæla við hugmynd um framboð eða hvort um sögusagnir sé að ræða. Svör hafa ekki fengist nema frá Andra Snæ sem sannfærði hana um að Framtíðarlandið taki ekki ákvörðun um framboð nema að undangengnu samráði við félaga sína.
-
Grein Blaðsins væri því gripin úr lausu lofti og byggð á getgátum, enda hafi ekki verið boðað til fundar um málið né ákvörðun tekin um hvort það verði gert. Greinarhöfundur bíður því eftir því að málin skýrist enda getur ekki verið gott fyrir umhverfisinnað fólk að vita ekki, í aðdraganda kosninga, hvort það geti verið hluti af Framtíðarlandinu, sé það flokksbundið annars staðar, eða ekki. Það er mikið í húfi að hinn virki kjarni Framtíðarlandsins fari nú að boða félagsmenn sína til fundar um ákvörðunartöku í málinu. Því varla getur ætlunin verið að láta þúsundir eldheitra umhverfissinna bíða á hliðarlínunni til eilífðarnóns.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Blaðrar Blaðið bara?“, Náttúran.is: 15. desember 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/bladrar_bladid/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 30. apríl 2007