Álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati vegna álvers í Helguvík er gallað, segir dósent í lögfræði. Þess vegna geti það ekki verið grundvöllur framkvæmdaleyfis.
Skipulagsmál "Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna álvers í Helguvík hefur að mínu mati alvarlegan efnisannmarka, og getur þess vegna ekki verið grundvöllur framkvæm
Skipulagsmál "Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna álvers í Helguvík hefur að mínu mati alvarlegan efnisannmarka, og getur þess vegna ekki verið grundvöllur framkvæmda- eða byggingarleyfis," segir Aðalheiður Jóhannsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
"Nú þegar tvö sveitarfélög hafa gefið út slík leyfi tel ég að umhverfisverndarsamtök geti kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála," segir Aðalheiður. Á sama tíma mætti krefjast þess að framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar þar til úrskurður hefur verið kveðinn upp.
"Ef það yrði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að það væru verulegir efnisannmarkar á áliti Skipulagsstofnunar yrði byggingarleyfið, sem er í raun framkvæmdaleyfi, væntanlega fellt úr gildi þar sem álitið er forsenda leyfisins," segir Aðalheiður.
Aðalheiður nefnir sérstaklega tvenns konar annmarka á álitinu. Annars vegar þar sem segir að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að "huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins" þar til niðurstaða liggi fyrir.
Hins vegar komi fram í álitinu að áður en Norðuráli verði veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þurfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fái heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda. Slík heimild liggi ekki fyrir nú.
Álver Norðuráls fékk byggingarleyfi vegna álversins frá sveitarfélaginu Garði og Reykjanesbæ formlega afhent á föstudag. Byggingarleyfi er í eðli sínu tæknilegt leyfi sem veitt er til að staðfesta að byggingarnar uppfylli tæknilegar kröfur, segir Aðalheiður.
Þegar byggingarleyfi Norðuráls er skoðað er þó augljóst að þar er að hluta til um dulbúið framkvæmdaleyfi að ræða segir hún. Meðferð málsins hjá viðkomandi sveitarstjórnum styðji þá niðurstöðu.