Stjórn Græna netsins, samtaka umhverfisverndarsinna í tengslum við Samfylkinguna lýsir fullum stuðningi við Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra og mótmælir samþykktum um að leyfa framkvæmdir í Helguvík í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi í hádeginu í dag, 13. mars 2008:

„Stjórn Græna netsins tekur undir ummæli Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra um fyrirhugaðar framkvæmdir í Helguvík og lýsir fullum stuðningi við ráðherrann í þessu máli. Stjórn Græna netsins mótmælir harðlega ákvörðunum tveggja sveitarstjórna um að leyfa framkvæmdir í Helguvík. Ekki hefur verið tryggð orka til álversins og er meira að segja alls óljóst um orkuöflun til fyrri eða fyrsta áfanga þess. Ýmsar þeirra virkjana sem til þess voru ætlaðar eru enn á teikniborðinu, aðrar ekki komnar gegnum umhverfismat og ekki líklegt að af þeim verði, t.d. virkjuninni á Ölkelduhálsi eða Bitru. Mikil óvissa er um flutningslínur að Helguvík og álfyrirtækið hefur ekki aflað sér losunarkvóta. Þá hefur umhverfisráðherra hefur enn ekki úrskurðað um kæru Landverndar um umhverfismat álversframkvæmdanna í heild.

Við þessar aðstæður eru yfirlýsingar forráðamannanna og samþykktirnar í sveitarstjórnum Reykjanesbæjar og Garðs fyrst og fremst áróðursbragð til að afla málinu fylgis í miðjum tíðindum um kólnun í efnahagslífi og alþjóðlega fjármálaerfiðleika. Staðreyndin er sú að álver í Helguvík hefur neikvæð áhrif gagnvart þeim úrlausnarefnum sem nú blasa við í efnahagsmálum og álversframkvæmdir þar mundu síst draga úr vanda byggðanna kringum landið. Framkvæmdir munu án vafa seinka vaxtalækkunarferli Seðlabankans og lækkun verðbólgu með gríðarlegum kostnaði fyrir heimilin í landinu.
Álver eru ekki svarið í atvinnuuppbyggingu næstu áratuga en sumar þeirra virkjanaframkvæmda sem framkvæmdirnar byggjast á eru hinsvegar hrein umhverfisslys.

Stjórnvöld eiga að hindra álversáform í Helguvík og beita áhrifum sínum til þess að sú orka sem í boði er á svæðinu sé nýtt til nútímalegri og umhverfisvænni iðnaðar.“

Birt:
13. mars 2008
Höfundur:
Græna netið
Tilvitnun:
Græna netið „Græna netið lýsir yfir stuðningi við umhverfisráðherra vegna Helguvíkur“, Náttúran.is: 13. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/13/graena-netio-lysir-yfir-stuoningi-vio-umhverfisrao/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. mars 2008

Skilaboð: