Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur - Fréttatilkynning
Þörf á bættri upplýsingamiðlun um matvælaöryggi
-
Nýverið birtust fréttir þess efnis (Morgunblaðið 5. október) að víða um heim hafi fundist matvæli menguð af erfðabreyttum hrísgrjónum frá Bandaríkjunum, sem ræktuð voru í tilraunaskyni fyrir fimm árum, en óheimilt er að framleiða til markaðssetningar og neyslu. Engar óháðar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum hrísgrjónum mtt. hugsanlegra áhrifa þeirra á umhverfi eða heilsufar. Mörg lönd krefjast þess nú að óháðar prófunarstofur gangi úr skugga um hvort hrísgrjónasendingar frá Bandaríkjunum séu mengaðar, áður en innflutningur er leyfður. Á undanförnum mánuðum hafa hrísgrjónafarmar verið stöðvaðir og vörur verið innkallaðar víða um heim, sem mengaðar voru af hinu erfðabreytta hrísgrjóni.
-
Lýst er þungum áhyggjum af því að yfirvöld hér á landi skuli ekki hafa brugðist við þessu m.a. með því að gera íslenskum fyrirtækjum og neytendum umsvifalaust viðvart um málið. En almenningur frétti af því eftir öðrum leiðum mörgum vikum eftir að Evrópusambandið gaf út tilkynningu um það. Bendir þetta til þess að þörf sé á bættri upplýsingamiðlun og skjótari viðbrögðum eftirlitsstofnana um mál sem kunna að varða matvælaöryggi og hollustuvernd.
Fjöldi innfluttra matvæla mengaður?
Minnt er á að margar tegundir innfluttra matvæla kunna að innihalda umrædd erfðabreytt hrísgrjón, en framkvæmdastjóri Matvælaöryggisstofnunar Bandaríkjanna (Centre for Food Safety) staðfesti ný verið að “ólögleg og hugsanlega hættuleg hrísgrjón er að finna í korngeymslum, í hillum stórmarkaða, í morgunkorni, bjór, barnamat og öllum öðrum hrísgrjónaafurðum.”
-
Óháðar prófanir verði þegar gerðar
Mikilvægt er að yfirvöld láti þegar í stað fara fram prófanir á innfluttum vörum, sem vitað er að innihalda hrísgrjón frá Bandaríkjunum, og kynni opinberlega niðurstöður þeirra þannig að innflytjendur, verslanir og neytendur geti brugðist við með viðeigandi hætti.
Bent er á að bandarísk vottorð um hreinleika hrísgrjónafarma hafa ekki reynst vera áreiðanleg, sbr. farm sem barst ný verið til Hollands og var “vottaður” án eb-efna en reyndist mengaður af LL601 erfðabreyttum hrísgrjónum.
Fyrirtækið sem ber ábyrgð á hinum erfðabreyttu hrísgrjónum (Bayer Crop Science) leitar nú allra leiða til að knýja fram afturvirkt markaðsleyfi í Bandaríkjunum á hinum óleyfilegu hrísgrjónum í því skyni að forðast yfirvofandi skaðabótakröfur. En þó svo færi eru hin erfðabreyttu hrísgrjón ólögleg í Evrópu þar sem þau hafa ekki farið í gegnum og staðist öryggis- og áhættumat það sem krafist er í Evrópusambandinu.
Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur. www.erfdabreytt.net
Nánari upplýsingar veita:
• Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, s. 545 1203 og 897 5008, jg@ns.is
• Gunnar Á. Gunnarsson, frkvstj. Túns, s. 511 1330 og 820 4130, tun@mmedia.is
DNA grafík af veraldarvefnum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur - Fréttatilkynning“, Náttúran.is: 6. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/kynningaatak_erfdabr_lifv/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007