Á morgun er haldinn Buy Nothing Day (ísl. Ekki kaupa neitt í dag dagurinn) í Bandaríkjunum en 24. í öðrum löndum. Eins og margir vita þá er Þakkargjörðarhátíðin í Bandaríkjunum nú um helgina. Buy Nothing Day er ekki til þess að fólk kaupi ekki neitt yfir hátíðir eins og Þakkargjörðarhátíðin eða jólin, heldur til þess að staldra aðeins við og taka þá ákvörðun að taka ekki þátt í þessu mikla kaupæði sem á sér stað í flestum verslunum og verslunarmiðstöðvum. Þetta snýst um að minna sjálfa okkur á það að hugsa um það sem við kaupum, afhverju við kaupum hitt og þetta og hvort við höfum þörf fyrir það sem við erum að kaupa.

Eins og áður hefur komið fram er Buy Nothing Day haldinn í Bandaríkjunum þann 23. nóvember en þann 24. í öðrum löndum. Ég spyr mig afhverju það hefur ekkert verið fjallað um þetta á Íslandi. Er þetta of ómerkilegt fyrir fjölmiðla sem birta oft ómerkilegar fréttir eins og þegar einhver maður klessti 20 milljóna króna bílinn sinn á bíl sem er 2000 sinnum ódýrari?

Tónlistarstöðin MTV hefur neitað að birta sjónvarpsauglýsingu þessa dags þar sem auglýsingin þyki "óviðeigandi fyrir áhorfendur" og vill stöðin ekki ganga svona langt. Samt finnst þeim allt í lagi að spila heimskuleg og kynferðisleg myndbönd af hálfnöktum kvenmönnum.

Það að keyra um á hybrid bílum og að takmarka efnaúrgang iðnaðarfyrirtækja er frábært en það eru skammtímalausnir ef við lítum ekki á heildarvandamálið. Stærsta vandamál þessa heims er neysla okkar jarðabúa. Neysla okkar verður að minnka til muna ef við ætlum að ná árangri. Þetta eru skilaboð Buy Nothing Day.

Á vef Adbuster - Buy Nothing Day er hægt að taka þátt í umræðum, koma með hugmyndir um hvernig hægt er að gera eitthvað í málunum, senda skilaboð til MTV til að mótmæla ákvörðun þeirra um að sýna ekki auglýsingarnar, hægt er að skoða auglýsingarnar, segja sína skoðun og lesa sig til um hvernig hægt er að vekja athygli á þessum merka degi. Eitt dæmi um það er að fara með vinum þínum í stórmarkað, láta alla taka sér kerru og mynda langa biðröð þótt þið eruð með tómar körfur og ætlið ekki að kaupa neitt. Einnig er bent á þá hugmynd að vera sjálfboðaliði sem stendur fyrir framan verslanir með skæri og bjóðast til að skera debet- og kreditkort viðskiptavina í sundur. Hægt er að vekja athygli á þessum atburði hvar sem er í heiminum - þetta kemur öllum við!

Ég hvet ALLA Íslendinga til að taka þátt í þessum degi þó fæstir vita af þessu þar sem fjölmiðlar hafa ekki enn fjallað um þennan atburð. Við Íslendingar getum lagt okkar af mörkum. VIð hljótum að lifa það af að vera ekki að kaupa neina vitleysu í einn dag.

Hér að neðan er hægt að horfa á auglýsinguna sem MTV vildi ekki sýna á sjónvarpsstöðinni:
MUNIÐ! 24. NÓVEMBER ER NEYSLULAUS DAGUR
Birt:
22. nóvember 2007
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „24. nóvember: Buy Nothing Day“, Náttúran.is: 22. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/22/24-november-buy-nothing-day/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: