Friðlýsing Vatnshornsskógar í Skorradal
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur undirritað friðlýsingu Vatnshornsskógar í Skorradal sem friðlands í samræmi við þingsályktun um náttúruverndaráætlun. Friðlýsingin var unnin í samvinnu við Skorradalshrepp og Skógrækt ríkisins.
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda náttúrulegan, lítt snortinn og hávaxinn birkiskóg með gróskumiklum botngróðri og erfðafjölbreytileika birkisins á svæðinu. Á svæðinu er líffræðileg fjölbreytni mikil og þar vaxa sjaldgæfar tegundir. Með friðlýsingu skógarins á að tryggja að líffræðilegri fjölbreytni vistgerða og vistkerfa svæðisins verði viðhaldið. Í því ljósi á að vernda tegundir dýra, plantna og annarra lífvera ásamt erfðaauðlindum sem tegundirnar búa yfir og búsvæði þeirra. Ennfremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta rannsókna-, útivistar- og fræðslugildi svæðisins.
Skógrækt ríkisins hefur umsjón með svæðinu, en Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingarinnar. Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins gera sérstakan samning um umsjón og rekstur friðlandsins.
Efri myndin er frá undirritun friðlýsingarinnar. Á myndinni eru standandi frá vinstri: Karólína Hulda Guðmundsdóttir úr sveitastjórn Skorradalshrepps, Birgir Hauksson skógarvörður Skógræktar ríkisins á Vesturlandi, Davíð Pétursson, oddviti Skorradalshrepps og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. Sitjandi eru þau Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu. Neðri myndin er kort af friðlandi Vatnshornsskógar.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Friðlýsing Vatnshornsskógar í Skorradal“, Náttúran.is: 30. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/30/friolysing-vatnshornsskogar-i-skorradal/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.