Aukaefni og ofvirkni - Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun birti nýlega niðurstöður rannsókna frá Lancet frá 6. september sl. sem breska matvælastofnunin (Food Standard Agency) vann í samráði við háskólann í Southampton. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort neysla á blöndu af nokkrum litarefnum og einu rotvarnarefni hefði áhrif á hegðunarmunstur barna. Um er að ræða eftirfarandi efni:
Litarefnin: tartrasín (E 102), quinoline yellow (E104), sunset yellow FCF (E 110), asórúbín (E 122), ponceau 4R (E 124) og allúra rautt (E 129).
Rotvarnarefni: natríumbensóat (E 211).
Litarefnin voru notuð í tveimur mismunandi blöndum en rotvarnarefnið var í báðum blöndunum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að hugsanlega geti neysla á blöndu af þessum rotvarnar- og litarefnum haft áhrif á hegðunarmunstur barna á þann hátt að ofvirkni aukist.
Niðurstöður rannsóknanna hafa verið metnar af óháðri vísindanefnd í Bretlandi. Matvælaöryggistofnun Evrópu (EFSA) mun meta niðurstöðurnar á fundi í september. Umhverfisstofnun mun fylgjast með meðferð málsins og setja hér inn þær upplýsingar sem kunna að berast.Þess má geta að EFSA vinnur nú að endurskoðun á mati á öllum leyfðum aukefnum og er endurskoðun litarefna hafin. EFSA gerir síðan tillögur til Evrópusambandsins um breytingar ef ástæða er til. Evrópusambandið (EB) ákveður síðan hvort og hvernig skuli breyta aukefnalöggjöfinni. Ísland tekur síðan upp aukefnareglur EB.
Leyfilegt er að nota þau rotvarnar- og litarefni sem rannsóknin náði til í ýmsar matvörur svo sem sælgæti og drykkjarvörur. Umhverfisstofnun vill benda neytendum á að í vörumerkingum matvæla á að merkja þau aukefni sem í vörunni er að finna. Það á því að vera auðvelt fyrir þá sem vilja forðast framantalin rotvarnar- og litarefni að lesa innihaldslýsingar á pakkningum matvæla og ganga þannig úr skugga um hvort efnin er að finna í vörunni. Verslanir eiga að gefa upplýsingar um innihald sælgætis sem selt er í lausu sé eftir því spurt, eða hafa upplýsingar við sælgætisbari.
Niðurstöður rannsóknarinnar:
Food additives and hyperactive behaviour in 3-year-old and 8/9-year-old children in the community: a randomised, double-blinded, placerbo-controlled trial. McCann D o.fl. The Lancet Online 6. sept. 2007. DOI:10.1016/S0140-6736 (07) 61306-3.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Aukaefni og ofvirkni - Umhverfisstofnun“, Náttúran.is: 21. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/21/aukaefni-og-ofvirkni-umhverfisstofnun/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. september 2007