Kartöflur
Margir segja að fyrsta árið eða fyrstu árin sem þeir ræktuðu kartöflur hafi þeir fengið þessa líka fínu uppskeru og síðan ekki söguna meir. Þarna hafa sáðskipti mikið að segja. En það er fleira sem getur gert kartöfluræktandanum gramt í geði svo sem:
- Of mikill ofanvöxtur á blöðum – athuga þá áburðargjöf
- Stöngulsýki – taka plöntuna burt úr beðinu
- Kartöflumygla – orsakast af veðurfari
- Hrúðurmyndun á hýði – skipta um tegund, garðstæði eða áburð og forðast kalk eða kalíum Kartöflurnar vaxa upp úr moldinni og verða sólgrænar – hreykja að eða handtína efstu kartöflurnar síðla sumars
- Frostskemmdir á blöðum vor og haust – taka á þolinmæðinni
Kartöflubændur í Andesfjöllunum voru hagsýnir og ræktuðu allt upp í fjóra tugi af kartöfluafbrigðum hvert ár. Það er sagt að þeir hafi gert þetta til að vera alveg vissir um að eitthvað heppnaðist og gæfi góða uppskeru, þótt afföll yrðu og erfiðleikar vegna veðurfars eða skordýra. Við gerum gjarnan þá kröfu að allt heppnist alltaf. En jarðvegur og aðstæður í garðinum geta gert það að verkum að eitt afbrigði vaxi betur en annað. Ef kláði er vandamál má reyna fljótsprottin afbrigði og ef garðurinn er moldargarður verða þær íslensku rauðu kannski ekki eins stórar og gómsætar og hjá þeim sem hafa sendinn garð, en það verður að taka því.
Ef ofanvöxtur er of mikill en minna undir er áburðargjöfin kannski ekki rétt eða of einhæf og þá er gott ráð að skipta yfir í lífrænt og setja kartöflur ekki næsta ár í sama beð. Þetta á ekki síst við um moldargarða. Mér hefur gengið bærilega að halda verstu sjúkdómunum frá með þessu móti. Einar Helgason segir í sinni ágætu matjurtabók, Hvannir, sem gefin var út 1926:
Hér er um svo fáar yrkisplöntur að ræða, að verulegum sáðskiptum verður ekki komið við, síst í stórum görðum, af því að mestmegnis eru ræktaðar gulrófur og kartöflur, en það er ekki eins mikill vinningur að skifta á um þær eins og ýmsar aðrar, þó er rétt að gera það í viðlögum, helzt á fárra ára fresti. Í litlum görðum, þar sem margar tegundir eru ræktaðar, t.d. í kauptúnum eða í grennd við þau, má betur koma sáðskiptum við; þar má árlega skipta um ræktunarreit fyrir kál, gulrætur, gulrófur og kartöflur.
Mikilvægt er að líta eftir því um sumarið hvort stöngulsýki hefur stungið sér niður og taka þá upp grasið. Það má nota þær kartöflur sem eru alveg heilar en henda stöngli og öllu sem sýkt er í ruslið, ekki í safnhauginn. Í ágúst, þegar grösin fara að láta á sjá, er hægt að fara yfir garðinn og handtína í matinn kartöflur sem eru efst og rétt undir moldinni, þessar sem annars verða grænar af sól og dagsbirtu, en láta sjálf grösin og kartöflurnar sem eru að vaxa standa áfram. Þarna er ég að ganga út frá því að enginn hafi haft tíma til að hreykja upp að grösunum í júlí, til þess að þær yxu ekki upp úr moldinni og yrðu grænar. Þetta er meira vandamál hjá sumum en hjá öðrum og fer líklega eftir því hversu djúpt útsæðinu var plantað og hvort sett var í flöt beð eða upphleyptar rákir.
Kartöflumygla sést ekki endilega þegar tekið er upp en kemur fram skömmu eftir að búið er að ganga frá uppskerunni. Vegna þess að kartöfluafbrigði eru misnæm fyrir myglu er mikilvægt að halda þeim alveg aðgreindum í kössunum. Þær rauðu eru gjarnastar á að mygla.
Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin fæst keypt hér á Náttúrumarkaðinum.
Mynd: Kartöflur í Eldhúasgarðinum. Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Kartöflur“, Náttúran.is: 18. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/kartflur/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014