Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Rejoice Mabudafhasi, aðstoðarumhverfisráðherra Suður-Afríku, hafa sameiginlega tekið við formennsku í Samtökum kvenleiðtoga í umhverfismálum. Á fundi samtakanna í Mónakó í gær var m.a. rætt um hvernig fjármögnun aðgerða í loftslagsmálum gæti komið konum í þróunarlöndunum til góða, en ákvarðanir um orkugjafa fyrir heimili hafa mikil áhrif á líf og heilsu kvenna, sem sjá um flest störf þar.

Við þetta tilefni flutti Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra erindi um kjarnorku. Hún sagði umræðu um loftslagsbreytingar ekki mega verða til þess að menn líti á kjarnorku sem vænlega lausn í orkumálum og reyni að breiða yfir óleyst vandamál tengd öryggi og geislavirkum úrgangi. Umhverfisráðherra rakti sögu kjarnorku til orkuframleiðslu og þann vanda sem hún hefði skapað. Ótti vegna öryggismála hefði ekki reynst ástæðulaus, eins og Chernobyl-slysið væri dæmi um. Geislavirkur úrgangur hlæðist upp á lóðum kjarnorkuvera, án þess að menn hefðu fundið langtímalausn á geymslu hans. Úrvinnsla geislaúrgangs leiddi til mengunar, eins og Sellafield-stöðin í Englandi væri dæmi um, sem léti geislavirk efni renna út í Atlantshafið. Íslendingar hefðu áhyggjur af geislavirkum efnum í hafinu og ítrekuð öryggisvandamál í Sellafield hefðu ekki sefað þær áhyggjur.

Nú væru hins vegar uppi raddir um að kjarnorka væri vænleg lausn til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar væri tilhneiging til að breiða yfir vandamálin tengd nýtingu kjarnorku, sem væru óleyst. Auk þess hefðu bæst við ný áhyggjuefni, um að nýting kjarnorku auðveldaði útbreiðslu kjarnavopna og að kjarnorkuver yrðu skotmark hryðjuverkamanna. Athuganir bentu til þess að fyrir hendi væru miklir möguleikar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með orkusparnaði, nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og öðrum leiðum. Rétt væri að skoða öruggar og hagkvæmar aðgerðir á þessum sviðum áður en horft væri til kjarnorku.

Umhverfisráðherra sagði Íslendinga ekki vera mótfallna friðsamlegrar nýtingar kjarnorku undir öllum kringumstæðum. Þau ríki sem nú væru að horfa til kjarnorku í viðleitni sinni til að draga úr loftslagsbreytingum gætu hins vegar ekki leyft sér að horfa fram hjá vandamálunum, þau yrðu að leysa þau. Úrvinnsla geislavirks úrgangs væri óásættanleg, þar sem hún þþddi mengun umhverfisins til langs tíma.

Fjölmiðlum er frjálst að nota meðfylgjandi mynd sem tekin var á fundi Samtaka kvenleiðtoga í umhverfismálum sem fram fór í Mónakó í gær. Á myndinni eru formenn samtakanna, þær Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Rejoice Mabudafhasi, aðstoðarumhverfisráðherra Suður-Afríku.
Birt:
22. febrúar 2008
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Umhverfisráðherra leiðir Samtök kvenleiðtoga í umhverfismálum“, Náttúran.is: 22. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/22/umhverfisraoherra-leioir-samtok-kvenleiotoga-i-umh/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: