Ofnbakaðar kartöflur. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Á sama hátt og soðnar kartöflur eru undirstaða allrar kartöflueldamennsku má líta á bökuðu kartöfluna sem hulstur af skinni sem heldur utan um innvols sem má blanda með salti og kryddi, smjöri, eggjum, kavíar eða osti og breyta þannig að vild. Stundum er kartaflan bökuð aftur eftir að innihaldinu hefur verið skóflað út og því umbreytt.

Bökunarkartöflur ættu að vera nokkuð stórar og þær mega vera mjölmiklar. Þegar kartöflur eru bakaðar þarf hitinn að vera hár. Gera þarf ráð fyrir að minnsta kosti klukkustund. Oft tekur það lengur. Séu kartöflurnar settar beint á plötu eða grind í ofninum verður skinnið stökkt. Ef skinnið er núið með olíu verður það mýkra. Sumir rista lítinn kross í kartöfluna svo gufan komist út, einkum þegar hún á lítið eftir til að fullbakast. Indíánar eru sagðir baka sínar kartöflur grafnar í sand sem má vel gera í stóru fati. Aðrir leggja kartöflurnar í fat með grófu, náttúrulegu salti í botninum.

Séu kartöflur vafðar í álpappír eða settar í lokað ílát soðna þær í eigin raka, hvort sem er í ofni eða á grilli. Svo má skera kartöfluna í sneiðar en láta þó botninn haldast heilan svo hún opni sig í eins og ílangt blóm og flettist út, olíubera hana og krydda með timjan eða sesamfræjum. Þá tekur töluvert skemmri tíma fyrir hana að bakast og hitinn má vera góður meðalhiti.

Enn ein aðferð er að stinga hreinum þriggja tommu nagla gegnum kartöflurnar til að leiða hitann inn að miðju og skera litlar sneiðar af hvorum enda til að hleypa út raka. Þetta styttir bökunartímann.

Til hátíðabrigða skera Frakkar stórar, hráar bökunarkartöflur í tvennt, skrapa mestmegnið innan úr skeljunum, sjóða og stappa það sem skafið var innan úr og blanda með kryddi, pulsukjöti, smjöri og lauk og setja aftur í skelina af hráu kartöflunni. Síðan er þetta bakað við góðan hita í eldföstu fati í 30–60 mínútur. Tímalengdin fer eftir gerð kartöflunnar og stærð. Eða þeir baka kartöfluna fyrst og skera hana síðan í tvennt, skafa innan úr en ekki of vandlega og gera kryddaða, fína mús úr innihaldinu og setja aftur í skelina og hita vel.

Bláar kartöflur eru gjarnan ofnsteiktar til að varðveita litareinkennin. Ofninn er þá hitaður í 200 gráður. Á meðan eru kartöflurnar skornar þannig að sneiðarnar verði sem stærstar um sig og rúmlega sentímetra þykkar. Borin er olía á bökunarplöturna. Kartöflusneiðunum er velt varlega upp úr olíu í skál og þær kryddaðar með góðu salti og ferskmöluðum pipar. Þær eru síðan ofnsteiktar fyrst á annarri hliðinni en síðan snúið við og hafðar 20 mínútur á hvorri hlið eða þangað til þær eru orðnar mjúkar.

Magnús Gíslason amtmaður velti því fyrir sér í upphafi ræktunar hver væri besti mátinn til þess að venja hjúin sín á kálmeti og jarðepli og þetta var hans niðurstaða:

  1. Að húsbændurnir hafi þess konar jafnan á sínu eigin borði og gefi hjúunum leifarnar svo sem annað sælgæti.
  2. Að brúka ekki of mikið af því í fyrstunni;
  3. Gefa börnunum jarðepli til að hlaupa að eldinum með og steikja; tekur vinnufólkið það vonum bráðar eptir.

Börn erlendra stórborga eiga sér mörg hver góðar minningar um að steikja kartöflur yfir eldi í tunnu þangað til skinnið var brunnið og innihaldið smakkaðist af reyk.

Úr Blálandsdrottningunni eftir Hildi Hákonardóttur.

Mynd: Bakaðar kartöflur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
24. október 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Að baka kartöflur“, Náttúran.is: 24. október 2014 URL: http://nature.is/d/2009/09/12/ao-baka-kartoflur/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. september 2009
breytt: 24. október 2014

Skilaboð: