Rennsli eykst í Skaftá
Samkvæmt upplýsingum frá Vatnamælingum hefur Skaftárhlaupið vaxið hratt og nú kl. 17:00 nálgaðist rennslið við Sveinstind 1100 rúmmetra á sekúndu. Rennslið hefur því 16-faldast síðan kl. 06:00 í morgun, er hlaupsins varð fyrst vart í gögnum frá Sveinstindi. Búast má við enn frekari aukningu og sennilega nær hlaupið hámarki á morgun, sunnudaginn 12. október. Flogið var yfir svæðið í dag, laugardag, fyrst yfir útfall vatnsins undan sporði Skaftárjökuls, þar kemur mestur hluti hlaupvatnsins fram á sama stað og venjulega. Næst var flogið yfir Skaftárkatla í Vatnajökli og sást þá að yfirborð eystri ketilsins hefur sigið mjög og hlaupið kemur því úr honum eins og talið var. Stórar hringsprungur hafa myndast umhverfis ketilinn allan. Fjögurra manna leiðangur frá Vatnamælingum og Veðurstofunni var staddur á jöklinum og staðfestu þeir símleiðis, eftir að hafa kannað aðstæður, að svæðið umhverfis eystri ketilinn væri með öllu ófært yfirferðar. Áfram er fylgst með framgangi hlaupsins.
Mynd frá Skaftárhlaupi 2007. Mynd: Vísir.is.Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Rennsli eykst í Skaftá“, Náttúran.is: 11. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/11/rennsli-eykst-i-skafta/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.