Umhverfisráðuneytið og sveitarstjórn Skaftárhrepps hafa náð samkomulagi um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs innan lögsögu sveitarfélagsins. Samkvæmt samkomulaginu mun verða unnið að friðlýsingu á Langasjó, hluta Eldgjár og nágrennis eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun 2009-2013. Innan þessa svæðis eru náttúruminjar sem taldar eru hafa mikið gildi á heimsvísu, auk hins háa útivistar, fræðslu og vísindagildis svæðisins. 

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir samkomulagið tímamótaáfanga í náttúruvernd hér á landi. Langisjór og nágrenni sé einstök náttúruperla sem verði vernduð fyrir komandi kynslóðir samkvæmt þessari ákvörðun. Hún segir mjög ánægjulegt að samkomulag hafi náðst um þetta við sveitarstjórn Skaftárhrepps. 

Í tengslum við samkomulagið hefur sveitarstjórn Skaftárhepps unnið að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar þann 14. febrúar þar sem umrædd stækkun þjóðgarðsins kemur meðal annars fram.

Skaftárhreppur og umhverfisráðuneytið hafa jafnframt gert með sér samkomulag um stýrihóp vegna aðgerða gegn gróður- og landeyðingu á áhrifasvæði Skaftár. Mun hópurinn hefja störf nú í vor til að vinna að brýnum viðfangsefnum á Skaftársvæðinu í samstarfi við hlutaðeigandi aðila.

Sjá nánar á heimasíðu umhverfisráðuneytisins: http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1768

Meðfylgjandi er mynd Helgu Davids af Langasjó, Fögrufjöllum og Skaftá með Vatnajökul í baksýn.

Birt:
17. febrúar 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Samkomulag um friðlýsingu á Langasjó og hluta Eldgjár “, Náttúran.is: 17. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/17/samkomulag-um-fridlysingu-langasjo-og-hluta-eldgja/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: