Soðnar kartöflur og fiskur
Það hefur svolítið gleymst í upprifjun á matarvenjum Íslendinga, soðningin og kartöflurnar. Lengst af á síðustu öld var þetta aðalhversdagsmatur vikunnar. Kartöflur fara einfaldlega betur með fiski en brauð, hrísgrjón, pasta eða nokkuð annað það sem inniheldur kolvetni. Þessi einfalda en næringarríka aðalmáltíð dagsins var í meira en hundrað ár framreidd á allflestum heimilum og á vissulega skilið að henni sé haldið á lofti. Efalítið hafa kartöflurnar einmitt fyrir þetta fallið vel að lífsmunstri þurrabúðarfólks í sjávarplássum eins og á Akranesi og Eyrarbakka. Nýr eða vel verkaður fiskur, siginn eða saltaður, með góðum kartöflum og smjöri, hömsum eða ólífuolíu er herramannsmatur sem ekki þarf að bæta en vilji menn það má reyna fínskorið, grænt krydd, svo sem graslauk, spírur, karsa, dill eða jafnvel njóla, súrur og skarfakál. Sítrónu og franskt sinnep má hafa með og kapers eða sólþurrkaða tómata fyrir þá sem vilja eitthvað frá suðrænni löndum.
Kartöfluræktandi á Grímstaðaholtinu var með garða í Skammadal, á Korpúlfsstöðum og í Höfnum og prufaði ýmis afbrigði. Hann fékkst aldrei til að borða nema soðnar kartöflur og þótti ekkert matur nema hann fengi soðnar kartöflur með. Á jólum og hátíðum, þegar húsfreyjan brúnaði kartöflurnar eða bjó til mús, varð að taka frá soðnar sérstaklega handa honum.
Úr Blálandsdrottningunni eftir Hildi Hákonardóttur.
Mynd: Ýsa og kartöflur, ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Soðnar kartöflur og fiskur“, Náttúran.is: 25. september 2014 URL: http://nature.is/d/2009/09/12/soonar-kartoflur-og-fiskur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. september 2009
breytt: 25. september 2014