Mótun stefnu um lífræna framleiðslu - Sjónarmið Samtaka lífrænna neytenda
1. Inngangur
Samtök lífrænna neytenda (SLN), stofnuð í Reykjavík þann 7. mars 2011, hvetja ríkisstjórn Íslands til að móta stefnu um lífræna framleiðslu á Íslandi sem miði að því að auka framleiðslu og neyslu lífrænt vottaðra afurða með hagsmuni neytenda, búfjár og verndun umhverfisins að leiðarljósi. Í kjölfar þess verði unnin markviss framkvæmdaáætlun um innleiðingu þeirrar stefnu. Margt sem að slíkri stefnumótun lýtur kemur fram í þingskjali 371 “Þingsályktunartillaga um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði” sem var samþykkt samhljóða á Alþingi í mars síðastliðnum. SLN eru tilbúin til að leggja sitt af mörkum við þá vinnu.
Hvatt er til þess að reynsla og þekking framleiðenda og þjónustuaðila sem sérhæfa sig á þessu sviði verði einnig nýtt í ríkum mæli. Þá er átt við frumframleiðendur, vinnslustöðvar, rannsókna- og fræðslustofnanir, ráðgjafa, vottunarstofur, hagsmunasamtök, dreifingar- og söluaðila.
Lífrænar aðferðir hafa um áratuga skeið verið notaðar í íslenskum landbúnaði með góðum árangri og hafa þannig sannað sig með ótvíræðum hætti sem ræktunarform við loftslagsaðstæður á norðurslóðum. Hafa ber í huga að hugtakið “lífrænt” [e. Organic] byggir á alþjóðlega viðurkenndum skilgreiningum sem staðfestar eru í stöðlum, reglugerðum og opinberri stefnumótun víða um heim.
Ríkisstjórnin hefur í stefnuyfirlýsingu sinni lagt áherslu á loftslagsmál, umgengni við náttúruna og sjálfbærni og þar er lífræn ræktun mikilvægur þáttur: “Ríkisstjórnin mun standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar og standa vörð um störf í matvælaiðnaði. Íslenskur landbúnaður verði efldur með áherslu á fullvinnslu afurða og markaðssókn innanlands sem utan. Stuðningskerfi landbúnaðarins verði endurskoðað með áherslu á að auðvelda nýliðun. Svigrúm bænda til heimaframleiðslu, vöruþróunar og heimasölu með upprunamerkingum verði aukið og nýtt til sóknar í ferðaþjónustu. Átak verði gert í lífrænni ræktun og bændum tryggður aðlögunarstuðningur skipti þeir úr hefðbundinni ræktun yfir í lífræna.” (1)
2. Rökstuðningur
Sú stefna að auka framleiðslu og neyslu lífrænt vottaðra afurða er í fullu samræmi við núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar. Rökstuðningur fyrir slíkri stefnu er meðal annars:
- Heilbrigði þjóðarinnar hlýtur að vera eitt af mikilvægustu málefnum hverrar ríkisstjórnar. Neysla lífrænt vottaðra afurða stuðlar að auknu heilbrigði þjóðarinnar og ástæður þess eru allnokkrar. Til að mynda innihalda lífrænt vottuð matvæli hlutfallslega meiri og fjölbreyttari næringu (2). Lífrænt vottaðar afurðir og framleiðsluferli þeirra eru einnig laus við skaðleg eiturefni, tilbúinn áburð, hormóna, erfðabreyttar lífverur og meðferð sem felur í sér jónandi geislun. Ennfremur er óheimilt að nota óæskileg aukefni í unnar vörur sem geta haft skaðleg áhrif á líkamann (3).
- Fæðuöryggi (öruggur aðgangur að fæðu) og matvælaöryggi (öryggi afurðanna fyrir umhverfið og heilsu manna og dýra) eru hugtök sem er nauðsynlegt að taka tillit til þegar kemur að lífrænni ræktun því hún byggir á því sem jörðin gefur og hennar náttúrulegu og óþrjótandi hringrás, í stað jarðolíu og afurðum hennar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að lífræn ræktun byggir upp jarðveginn í stað þess að ganga á hann (4).
- Atvinnuþróun og byggðamál eru í brennidepli og hafa verið um skeið. Ræktun og framleiðsla á lífrænum afurðum er starfsemi sem styrkir landsbyggðina og skapar störf í sátt við vistkerfi og samfélagið, samanber úttekt Evrópusambandsins á áhrifum lífræns landbúnaðar á starfsmöguleika í dreifbýli (5) og skilgreiningu BLS (Bureau of Labor Statistics) í Bandaríkjunum á grænum störfum (6).
- Nýsköpun er mikil í lífræna geiranum, það á einnig við hér á landi. Tryggja verður að þessi atvinnugrein sé metin til jafns við aðrar, t.a.m. í tæknigeiranum þegar kemur að styrkja- og öðru stuðningsumhverfi.
- Bændasamfélagið á að vera aðalvörður um vistkerfin í landinu. Sem dæmi um slíkt þá hefur samvinna Landgræðslunnar og bænda við að hefta landrof skilað sér með vaxandi gróðurþekju. Ábyrgð bóndans sem framleiðanda er að tryggja sjálfbæra nýtingu landsins. Lífrænir búskaparhættir eru árangursríkasta leiðin til þess þar sem sjálfbærni er megin forsenda þeirra (7).
- Sjálfbær þróun í landbúnaði er forsenda þess að greinin geti brauðfætt þjóðina til lengri tíma og lífrænir búskaparhættir tryggja að ekki sé gengið á auðlindir meira en hægt sé að endurnýja þær.
- Ísland er að mestu einangrað landfræðilega og hefur það í för með sér að færri plöntu- og dýrasjúkdómar herja á lífríkið en í nágrannalöndum og þar af leiðandi er notkunskordýraeiturs, grasaeyðis og fleiri eiturefna minni en víðast hvar annars staðar. Það gefur okkur færi á að stíga skrefið til fulls og skapa okkur afgerandi sérstöðu í framleiðslu vottaðra lífrænna afurða.
- Þróunin í heiminum í dag er í átt að lífrænni vottun (8). Reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu )9) er hinsvegar séríslensk og styðst ekki við alþjóðlegar lagareglur (10).
- Evrópusambandið er með mjög ákveðna stefnu í að efla lífræna ræktun og neyslu lífrænna matvæla (11) og ekki síður Norðurlöndin (12).
- Ferðaþjónusta bænda fékk Útflutningsverðlaun Íslands árið 2011. Matartengd ferðaþjónusta hefur verið að ryðja sér til rúms á Íslandi og ímynd hreinleika þarf að skila sér í gegnum framboð á matvælum fyrir erlenda og innlenda ferðamenn. Lífræn ræktun og neysla lífrænna afurða gæti því skapað þjóðartekjur á fleiri en einn hátt.
- Eftirspurn eftir lífrænum afurðum eykst stöðugt (13), meðal annars eftir áföll sem hafa orðið í kjötframleiðslu og almennt óöryggi í matvælaframleiðslu. Ákveðin, heildræn og markviss lífræn stefna á Íslandi gæti falið í sér markaðstækifæri fyrir hreinar og lífrænar afurðir frá landi sem hefur hreina ímynd og sterka lífræna landbúnaðarstefnu. Augljóst er, eins og bent er á í þingsályktunartillögu um stefnumótun í lífrænni framleiðslu (14), að lítill eða enginn árangur var af átakinu sem var stofnað til árið 1995 og að aðrar leiðir þurfa að koma til. Rétt er að árétta að verkefni til að styrkja ímynd landsins og landbúnaðarframleiðslu gagnvart erlendum viðskiptasamböndum svo sem “Iceland Naturally”, hefur ekki svarað hinni sívaxandi kröfu neytenda um lífræna framleiðslu. Markviss efling lífrænnar ræktunar mun hins vegar gera markaðssetningu hreinna, lífrænna íslenskra afurða mögulega.
Á þessum forsendum er stefnt að eftirfarandi markmiðum.
3. Markmið
Til að framangreind stefna geti orðið að veruleika, þurfa yfirvöld að setja sér skýr markmið og tilgreina raunhæfar leiðir. Hér á eftir eru nokkur dæmi nefnd.
- Hlutfall vottaðrar lífrænnar ræktunnar verði 15% af framleiðslunni 2020. Til samanburðar má nefna að markmið ESB er 20% árið 2020 (15) og Noregur setur markið á 15% árið 2020 (16).
- Öll útiræktun á erfðabreyttum lífverum verði óheimil (“moratorium”) eins og mörg lönd og mörg héruð í Evrópu hafa gert (17) , þar sem slíkt á ekki samleið með lífrænni ræktun og myndi þar að auki draga mjög úr ímynd landsins varðandi hreinleika náttúrunnar.
- Efla þarf og endurskoða kennslu í landbúnaðarháskólum. Kennslustefna og rannsóknarstefna verði endurskoðaðar þannig að lífrænn landbúnaður verði hluti af grunnmenntun en ekki jaðargrein (18). Lífrænn landbúnaður verði hluti af rannsóknum og kennslu í öllum greinum landbúnaðar á háskólastigi. Boðið verði upp á endurmenntunarnámskeið um lífræna búskaparhætti.
- Efla þarf rannsóknir í lífrænni ræktun á Íslandi, þar sem landið liggur á “jaðarsvæði”. Nauðsynlegt er að efla jarðvegsrannsóknir m.t.t. lífræns landbúnaðar. Rannsóknarsjóðir á vegum ríkisins s.s. Tækniþróunarsjóður, hvetji til og styrki rannsóknir á þessu sviði. Háskólarnir og sérfræðistofnanir s.s. Landgræðslan og Náttúrufræðistofnun verði hvattar til að sinna grunnrannsóknum í þágu lífrænnar ræktunar. Þegar er hægt að byggja á reynslu Skaftholts og Vallaness varðandi skiptiræktun og fleira. Setja mætti af stað verkefni við að skrásetja starfsemina til að hún nýtist áfram í rannsóknum og sem fyrirmynd annarra. Markviss þátttaka í Evrópuverkefnum er einnig mikilvægur liður í uppbyggingu rannsókna á þessu sviði.
- Efla stuðning til aðlögunar yfir í lífræna ræktun. Mikilvægt er að koma á fót viðunandi hagrænum hvötum. Styrkir í ramma umhverfismarkmiðsins, “grænir styrkir” verði opnir fyrir lífræna ræktun. Stuðningur við lífræna ræktun verði tryggður þannig að hægt sé að fylgja nýsamþykktum verklagsreglum um aðlögunarstuðning eftir.
- Tryggja umgjörð greinarinnar. Vernda þarf greinina fyrir heftandi þáttum eins og utanaðkomandi mengun. Sem dæmi hefur Svíþjóð bannað innflutning á erfðabreyttu dýrafóðri (19) og er með sömu stefnu og Noregur varðandi útiræktun á erfðabreyttum plöntum, enda hlutfall lífrænnar ræktunnar 14% þar í landi (þar með talið land í aðlögun) (20).
- Að lífræn ræktun verði grundvallarforsenda í stefnumótun íslensks landbúnaðar. Fyrsta skrefið í því er að lífrænir búskaparhættir fái vægi á við aðra búskaparhætti innan stjórnsýslu og hjá Bændasamtökum Íslands, búgreinafélögum og búnaðarsamböndum landsins. Staðan í dag er sú að hjá fyrrgreindum aðilum er einungis fjórðungur eins stöðugildis ætlað að sinna þessu hlutverki en það er hjá Bændasamtökum Íslands.
- Efla vitund almennings á kostum lífrænnar ræktunar og afurða hennar. Þetta má gera í skólakerfinu, í gegnum umhverfisfræðslu og heimilisfræðslu auk almennrar kynningar í fjölmiðlum. Þá má efla vitund fólks með kynningu á vottunarkerfum, innlendum og erlendum vottunarmerkjum og tryggja upprunamerkingu allra innlendra matvælaafurða (frá framleiðanda). Samstarf við framleiðendur, Neytendasamtök og SLN eru mikilvæg til að ná þessu markmiði.
- Tryggja trúverðugleika vottunar með viðeigandi eftirliti og viðurlögum. Ganga þarf úr skugga um að stofnanir sem sinna eiga eftirliti hafi bolmagn til að sinna því, en trúverðugleiki er lykill að velgengi íslenskrar lífrænnar matvælaframleiðslu jafnt innanlands sem á heimsmarkaði.
- Ríkið sem fyrirmynd. Ríkið gangi á undan með fögru fordæmi sem fyrirmynd og beiti sér fyrir neyslu lífrænna afurða með innkaupum á innlendum lífrænt ræktuðum matvælum í mötuneytum sínum eftir því sem framboð leyfir. Aukin eftirspurn stórkaupanda eins og ríkisins myndi ýta undir enn frekari framleiðslu.
Reykjavík, 14. apríl 2012
F.h. Samtaka lífrænna neytenda
Örn Haraldsson, fulltrúi starfshóps SLN - Opinber stefnumótun
1. http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing/
2 http://www.natturan.is/site_media/uploads/tun_benefits_of_oa.pdf
3 http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/key2/074-2002
4 http://www.rodaleinstitute.org/files/FSTbookletFINAL.pdf
5 http://ec.europa.eu/agriculture/organic/society-economy/rural-development_en
6 http://www.bls.gov/green/#definition
7 http://ec.europa.eu/agriculture/organic/organic-farming/what-organic_en
8 http://ec.europa.eu/agriculture/organic/consumer-confidence/logo-labelling_en
9 http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/key2/504-1998
10 http://ns.is/ns/modules/100/print.aspx?id=79945&ownertype=1&ownerid=15643&position=2
11 http://ec.europa.eu/agriculture/organic/eu-policy/action-plan_en
12 Noregur: http://www.regjeringen.no/upload/LMD/Vedlegg/Brosjyrer_veiledere_rapporter/Handlingsplan_okologisk_200109.pdf, Danmörk:http://www.fvm.dk/Files/Filer/Landbrug/%C3%98kologiVisionFeb2011_web.pdf Svíþjóð:http://www2.jordbruksverket.se/webdav/files/SJV/trycksaker/ Pdf_rapporter/ra04_19.pdf Finnland:http://www.mmm.fi/attachments/luomu/66XtNU2Rd/luomuohjelma_toteutussuunnitelma_FINAL.pdf
13 http://ec.europa.eu/agriculture/organic/consumer-confidence/consumer-demand_en
14 http://www.althingi.is/altext/139/s/0371.html
15 http://ec.europa.eu/agriculture/organic/eu-policy/action-plan_en
16 http://www.regjeringen.no/upload/LMD/Vedlegg/Brosjyrer_veiledere_rapporter/ Handlingsplan_okologisk_200109.pdf
17 http://www.gmo-free-regions.org/gmo-free-regions.html
19 http://www.genewatch.org/sub-568547
20 Jordbruksstatistisk Årsbok 2011, s.185. Jordbruksverket/Statistiska centralbyrån.
Birt:
Tilvitnun:
Örn Haraldsson „Mótun stefnu um lífræna framleiðslu - Sjónarmið Samtaka lífrænna neytenda “, Náttúran.is: 18. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/18/motun-stefnu-um-lifraena-framleidslu-sjonarmid-sam/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.