Styrkur svifryks (PM10) er iðulega hár í Reykjavík fyrstu klukkustund nýs árs og oft nýársnóttina alla ef veður er stillt. 1. janúar 2010 var til dæmis fyrsti svifryksdagur ársins. Líklegt er að styrkur svifryks muni lækka hratt á nýársnótt 2011 vegna austlægra vinda og spáðri úrkomu síðar um nóttina. „Það er því óljóst hvort styrkur svifryks fer yfir sólarhringsmörk þennan dag,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi hjá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á vefmæli Reykjavíkurborgar sem er tengdur mælistöð á Grensásvegi. Farstöð borgarinnar verður að þessu sinni staðsett í Blesugróf.

Svifryk fór á árinu 29 sinnum yfir sólarhrings heilsuverndarmörk í Reykjavík árið 2010 en mátti samkvæmt reglugerð fara sjö sinnum yfir mörkin. Í níu skipti er ástæðan rakin til öskufjúks frá Eyjafjallasvæðinu og fór styrkurinn hæst í um það bil 400 míkrógrömm á rúmmetra en heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50. Þetta er hæsta svifryksgildið á 21. öldinni í Reykjavík.

Flugeldar geta valdið háum styrk svifryks. Búist er við töluverðri sölu á flugeldum en heildarinnflutningur fyrir landið um þessi áramót var 510.024 kg sem er meira en í 2009 en þá voru uppgefnar tölur um 425 tonn. Töluvert magn af flugeldum er þegar til í landinu frá liðnu ári. Þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri þurfa að gæta sín þegar mest er skotið og styrkurinn hár.

Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) fór tvisvar sinnum yfir heilsuverndarmörkin á sólarhring árið 2010 en mörkin eru 75 míkrógrömm á rúmmetrar. Leyfilegt er að fara sjö sinnum yfir heilsuverndarmörkin samkvæmt reglugerð. Brennisteinsvetni (H2S) fór tvisvar sinnum yfir heilsuverndarmörkin á sólarhring en mörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Leyfilegt er að fara fjórum sinnum yfir þau á ári.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur eftirlit með brennum og veitir starfsleyfi fyrir þeim. „Við skoðum allar brennur og göngum úr skugga um að þar sé ekkert efni sem ekki má brenna,“ segir Ólöf Vilbergsdóttir heilbrigðisfulltrúi og að hleðslan sé einnig metin og fjarlægð frá íbúðarhúsum. Ábyrgðarmanni brennu er skylt að sjá svo um að á brennur fari ekki óæskilegur eldsmatur.

Feikilegt magn af rusli hlýst af flugeldum. Umbúðirnar eru aðallega pappi sem fólk þarf að skila sjálft í endurvinnslustöðvar ásamt öðrum skotleifum. Flugelda má alls ekki setja í tunnur við heimili fólks.

Birt:
Dec. 31, 2010
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Loftgæði í Reykjavík um áramótin“, Náttúran.is: Dec. 31, 2010 URL: http://nature.is/d/2011/01/01/loftgaedi-i-reykjavik-um-aramotin/ [Skoðað:June 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 1, 2011

Messages: