Farfuglaheimilin í Reykjavík hljóta umhverfisverðlaun Ferðamálstofu 2010
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru veitt í 16. sinn í dag og koma þau að þessu sinni í hlut Farfuglaheimilanna í Reykjavík fyrir markvissa umhverfisstefnu og sjálfbæran rekstur. Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, afhenti verðlaunin við athöfn á Grand hótel og sagði Farfuglaheimilin í Reykjavík vel að verðlaununum komin.
Umhverfisvottaðir gististaðir
Í dag eru rekin tvö farfuglaheimili í Reykjavík. Farfuglaheimilið á Vesturgötu 17 opnaði á vormánuðum 2009 í glæsilegu húsnæði. Frá opnun hefur Farfuglaheimilið unnið markvisst að því að takmarka áhrif rekstursins á umhverfið og hlaut vottun norræna umhverfismerkisins Svansins um ári eftir opnun heimilisins.
Farfuglaheimilið í Laugardal hefur um langa tíð hagað rekstri sínum í sátt við umhverfið. Árið 2002 hlaut heimilið Umhverfisverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir sitt framlag að umhverfismálum og árið 2004 fékk Farfuglaheimilið svansvottun. Heimilið hefur ávallt lagt áherslu á umhverfisfræðslu og hvatt gesti til að taka þátt í umhverfisstarfi á ferðalögum sínum. Farfuglaheimilin leggja sig einnig fram um að bæta nærumhverfi sitt með að taka þátt í og standa fyrir menningarviðburðum sem glæða samfélagið lífi.
Horft til framtíðar
Farfuglar birtu umhverfisstefnu sína árið 1999 og hafa í mörg ár verið í fararbroddi í umhverfisstarfi í ferðaþjónustu á Íslandi. Farfuglaheimilin í Reykjavík eru lykilheimili í hópi 36 farfuglaheimila á Ísland og hafa jákvæð áhrif á umhverfisstarf í fjölbreyttri gistikeðju. Þau eru sem stendur einu svansvottuðu gististaðirnir á Íslandi.
Það er krafa ferðamanna að geta valið þjónustu frá fyrirtækjum sem gera betur í umhverfismálum. Farfuglaheimilin í Reykjavík vinna af heilum hug við að mæta þessum kröfum og eftir dvöl þar eru gestirnir betur upplýstir um leiðir til að draga úr áhrifum á umhverfið. Auk þess miðar umhverfisstarf einnig að því að bæta starfsumhverfi og Farfuglar vilja bjóða starfsfólkinu sínu upp á það besta, líkt og gestunum. Um leið og það er rekstrarlega hagkvæmt er það fyrst og fremst siðferðislega rétt að vinna í anda sjálfbærni að mati Farfugla.
Nánari upplýsingar veita Markús Einarsson framkvæmdastjóri Farfugla, markus@hostel.is, s: 861 9434 Ásta Kristín Þorsteinsdóttir verkefnisstjóri, astakristin@hostel.is, s: 868 0979
Birt:
Tilvitnun:
Markús Einarsson „Farfuglaheimilin í Reykjavík hljóta umhverfisverðlaun Ferðamálstofu 2010“, Náttúran.is: 17. desember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/17/farfuglaheimilin-i-reykjavik-hljota-umhverfisverdl/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. desember 2010