Björk á blaðamannafundi um orkuauðlindirnar okkar
Í dag mánudaginn 19. júlí klukkan 16.00 verður kynnt öflug undirskriftasöfnun á www.orkuaudlindir.is vegna áskorunar um orkuauðlindir okkar. Áskoruninni verður ýtt úr vör með söng; Björk mun flytja nokkur laga sinna í nýrri útgáfu. Björk og aðrir aðstandendur ábendingarinnar hafa boðað til blaðamannafundar í Norræna húsinu í Reykjavík. Blaðamenn velkomnir.
Í fréttatilkyningu Bjarkar segir:
„Innan fárra daga er áætlað að samþykkja endanlega samninginn um kaup Magma Energy Sweden AB á HS Orku, sem leiðir til þess að fyrrnefnda fyrirtækið fær einkarétt á nýtingu dýrmætra og mikilvægra auðlinda okkar til næstu 65 ára með framlengingarmöguleika til annarra 65 ára!
Þann 13. júlí s.l. sendu þau Björk Guðmundsdóttir, tónlistarkona, Jón Þórisson, arkítekt og aðstoðarmaður Evu Joly og Oddný Eir Ævarsdóttir, rithöfundur, Umboðsmanni Alþingis formlega og ítarlega ábendingu um að taka sölu- og samningaferli í Magmamálinu til gagngerrar endurskoðunar og að gæta hagsmuna alls almennings, þar sem málið er gríðarlegt hagsmunamál og þar sem salan á HS Orku til erlends einkaaðila er prófsteinn á orkuauðlindastefnu framtíðarinnar.
Á alþjóðlegum vef sínum www.bjork.com birtir Björk jafnframt knýjandi spurningar á ensku og íslensku sem allar varða auðlindir og lýðræði á Íslandi og hún hvetur til gagnsærrar og opinnar umræðu.“
Ljósmynd: Björk á Náttúrulaus tónleikunum þ. 7. janúar 2006, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir „Björk á blaðamannafundi um orkuauðlindirnar okkar“, Náttúran.is: 19. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/19/bjork-bladamannafundi-um-orkuaudlindirnar-okkar/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.