Mannfórnirnar við Kárahnjúka
Í frétt á vef RÚV er í dag fjallað um fjölda vinnuslysa sem átt hafa sér stað við stífluframkvæmdirnar að Kárahnjúkum síðan framkvæmdir hófust þar árið 2002. Það leiðir hugann að raunum þeirra manna sem lentu í slysum og sorgum aðstandanda þeirra en um leið vekur furðu hve lítið hefur verið rætt um fjölda óhappa við Kárahnjúka og raun ber vitni. Hún er vissulega furðuleg þögnin sem ríkt hefur um þetta mál í þjóðfélaginu. Hvar ætli skýringuna sé að finna á því?
Hér er um að ræða gríðarlegan fjölda slysa að ekki sé minnst á þá fjóru sem létu lífið. Mannfórnir af þessu tagi ættu ekki að vera teknar sem sjálfsögðum hlut en ef svo er er næg ástæða til að hverfa algerlega frá verkefnum þar sem verktakar geta ekki tryggt öryggi starfsmanna sinna betur en raun ber vitni. Einnig ber að benda á að kostnaður ríkisins, ævi þessara fórnarlamba virkjanaframkvæmda fyrir stóriðjustefnuna á enda, mun verða mikill og þarf að taka inn í arðsemisútreikninga af slíkum framkvæmdum. Mér er ekki kunnugt um hvernig tryggingum starfsmanna erlendra verktaka s.s. Impreglio er háttað gagnvart íslenska ríkinu, en hvar svo sem greiðsluskildan liggur, og hverjir svo sem borga að lokum eða komast hjá ábyrgð, er það ekki á nokkurn hátt ásættanlegt að fórna lífi og limum manna á svo óforskammaðan hátt og raun hefur borði vitni um við Kárahnjúka.
Sjá frétt RÚV:
„Á annað hundrað eru enn óvinnufærir eftir að hafa orðið fyrir vinnuslysi við Kárahnjúka. Rúmlega 1700 vinnuslys voru tilkynnt á svæðinu frá því framkvæmdir hófust við virkjunina árið 2002, þar til í fyrra. Flestir þeirra sem slösuðust unnu hjá verktakafyrirtækinu Impregilo eða rúmlega 86%.
Tæpur fimmtungur þeirra sem slösuðust voru meðal yngstu starfsmannanna en flestir eða 37%, voru á aldrinum 30 til 39 ára. 27% slasaðra voru 40 til 49 ára. 10 þeirra sem slösuðust urðu fyrir óbætanlegu líkamstjóni, 122 beinbrotnuðu, 49 urðu fyrir eitrun og 35 brenndust, en fjórir létu lífið.“
Ljósmynd: Kárahnjúkastífla í byggingu, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Mannfórnirnar við Kárahnjúka“, Náttúran.is: 19. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/19/mannfornirnar-vid-karahnjuka/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.