Tesla S SedanRafbílaframleiðandinn Tesla Motors Inc. veðjar óhikað á velgengni rafbílanna í framtíðinni og hóf sölu nýrra hlutabréfa á almennum markaði í dag til að fjármagna nýjan fólksbíl. Með þessu er stjórn félagsins að auka áður fyrirhugaða hlutabréfasölu í félaginu úr 11,1 í 13,3 milljónir hluta. Vonast er til að verðið sem fæst fyrir hlutinn verði á bilinu 14 til 16 dollarar.

Samkvæmt frétt Associated Press byggist væntanleg sala algjörlega á því hvaða trú fjárfestar hafa á þessu fyrirtæki sem aldrei hefur skilað hagnaði og reiknar með áframhaldandi tapi, allavega til 2012

Félagið reiknar sjálft með að geta selt 11,9 milljónir nýrra hlutabréfa sem skili um 190 milljónum dollara í kassann fyrir utan þóknunarkostnað. Er þá miðað við gengið 16 dollarar á hlut. Síðan vonast menn til að um 2 milljónir bréfa seljist á almennum markaði.

Tesla Model S á markað 2012
Fyrirtækið kynnti sinn fyrsta rafbíl 2008 sem var Roadster sportbíll og kostaði 109.000 dollara. Um 1.100 bílar af þeirri gerð voru seldir víða um heim. Nýju hlutafé er ætlað að fjármagna smíði á Tesla Model S sem reiknað er með að kosti um 57.000 dollara á almennum markaði. Þó er vonast til að skattaafsláttur yfirvalda vegna rafmagnsbíla komi verðinu niður í um 50.000 dollara. Ráðgert er að nýi bíllinn komi í sölu 2012.

5,6 sekúndur í hundraðið

Tesla Model S á ekki að vera nein vélarvana drusla. Viðbragðið á að vera mjög gott og á hann að komast úr 0 í 60 mílur á 5,6 sekúndum (0 í 96,6km). Þar með verður hann fljótasti fjögurra dyra fólksbíllinn á markaðnum. Gert er ráð fyrir að hann komist um 260 til rúmlega 480 kílómetra á einni hleðslu.

Mynd: Teslan S Sedan af www.worldcarfans.com.

Birt:
30. júní 2010
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Tesla veðjar á glæsta framtíð rafbílanna“, Náttúran.is: 30. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/30/tesla-vedjar-glaesta-framtid-rafbilanna/ [Skoðað:22. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: