OR kynnir áætlun um takmörkun umhverfisáhrifa virkjana
-
Aðgerðirnar tengjast vinnu við mat á umhverfisáhrifum nýrra virkjana á svæðinu (Bitru og Hverahlíð) og mannvirkjum sem þegar hafa verið reist. T.a.m. var talað um að röralagnir ofanjarðar á borð við þær sem hrykklast nú undir Suðurlandsveg og sjónmenga svæðið, verði ekki endurteknar heldur annað hvort grafnar í jörðu eða faldar í landslagi eða bak við manngerðar manir. Eins mun vera á dagskrá að „Marsbúa“- kúlur yfir borholum og kolbikasvartir gufustrompar eins og gengið er frá þeim í dag tilheyri fortíðinni. Borholur við Bitru og Hverahlíð aðlagaðar umhverfinu neðanjarðar, sem dempar einnig til muna hávaðamengunina eða kæfir hana að mestu.
Vonir standa einnig til þess að rannsóknir sem nú standa yfir geti leitt til þess að brennisteinsfnykurinn sem nú liggur yfir svæðinu (og alla leið til höfuðborgarinnar) annað hvort snarminnki eða hverfi algerlega. Auk þess tilkynnti Guðmundur Þóroddsson forstjóri að OR væri ekki hlynnt byggingu tvö- til þrefaldra háspennumastra þvers og kruss um heiðina og sem leið liggur að fyrirhuguðum virkjunum á Reykjanesi heldur vilji OR eftir fremsta megni leggja línur í jörð.
-
Stjórnarformaður OR, Guðlaugur Þór Þórðarson gaf tóninn nú í haust um að hertar áherslur á sviði umhverfisáhrifa frá virkjunum standi fyrir dyrum hjá OR og eru þær nú að fæðast. Mikið starf hefur verið unnið innan fyrirtækisins við að finna bestu leiðirnar til að minnka neikvæð umhverfisáhrif af virkjunum á sem breiðustum grundvelli. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að áhugi einstakra manna hefur ætíð úrslitaþýðingu í framýróun, því öll framýróun byggir fyrst og fremst á hugmyndum sem kvikna og krafti einstaklinga til að knýja fram að þær komist í framkvæmd. Gamlar hugsanir eiga ekki heima í nútímanum og OR er að gera sér grein fyrir því .
-
Myndin er af vef RÚV frá viðtali við Guðmund Þóroddsson forstjóra OR.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „OR kynnir áætlun um takmörkun umhverfisáhrifa virkjana“, Náttúran.is: 2. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/landsvirkjun_aaetlun_umhverfisahrifa/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 29. apríl 2007