Náttúruvaktin vill vekja athygli á því skeytingarleysi sem stjórnvöld víða um land eru að sýna svæðum á Náttúruminjaskrá:

Reykjavík 2. febrúar 2007

Áskorun til umhverfisráðherra
Jónínu Bjartmarz

Náttúruvaktin vill vekja athygli á því skeytingarleysi sem stjórnvöld víða um land eru að sýna svæðum á Náttúruminjaskrá.
Náttúruvaktin tekur nú þátt í að reyna að verja þrjú svæði á náttúruminjaskrá fyrir óhóflegri framkvæmdagleði ráðamanna og verktakafyrirtækja. Í fyrsta lagi er í Álafosskvos hafin vegalagning við árbakka Varmár sem er á Náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa. Í öðru lagi vill Orkuveita Reykjavíkur leggja metangaslögn um fjörur í Blikastaðakró/Leiruvog í Reykjavík, sem eru á Náttúruminjaskrá, á Náttúruverndaráætlun og eru viðurkenndar sem alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði.

Bæði Varmá og Blikastaðakró hafa vaxandi verndargildi ekki hvað síst vegna nálægðar við byggð og mikilvægis fyrir útivist, fræðslu og vellíðan íbúa höfuðborgarsvæðisins. Í þriðja lagi er um að ræða lagningu Vestfjarðavegar um Gufudalasveit þar sem náttúruverndarsamtökin hafa öll mælt með því að vegurinn verði lagður í jarðgöng öllum til hagsbóta í stað þess að fara um fágætan skóg og ógna friðuðum arnarhreiðrum.
Öll þessi svæði eru á náttúruminjaskrá og njóta því sérstakrar lögverndar samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Þessi lögverndun virðist léttvæg þegar framkvæmdagleðin grípur um sig og skiptir þá litlu hvað verður undan að láta, eða hvaða gildi það hefur fyrir komandi kynslóðir.

Náttúruvaktin skorar á umhverfisráðherra að breyta stefnu sinni og veita engar undaný águr til framkvæmda á friðlýstum svæðum eða á náttúruminjaskrá nema staðfest sé að brýnir almennahagsmunir liggi til grundvallar framkvæmd og að allar aðrar leiðir hafi fyrst verið kannaðar.

Fyrir hönd Náttúruvaktarinnar, Ásta Þorleifsdóttir.

Birt:
6. febrúar 2007
Tilvitnun:
Ásta Þorleifsdóttir „Engar undanþágur til framkvæmda á friðlýstum svæðum - Áskorun til umhverfisráðherra frá Náttúruvaktinni“, Náttúran.is: 6. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/engar_undantagur/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 15. maí 2007

Skilaboð: