Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur verður umhverfis- og auðlindaráð og er því meðal annars ætlað að móta orku- og auðlindastefnu borgarinnar, segir í samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar sem kynnt var í dag, 15. janúar. Ráðið á að tryggja sameiginlegt eignarhald borgarbúa á auðlindum borgarlandsins og kveða á um eðlilegt afgjald af þeim.

Forgangsmál til framtíðar verða orkuskipti í samgöngum og rafvæðing þeirra, m.a. er stefnt að því að önnur hver bifreið í Reykjavík verði knúin vistvænni innlendri orku innan áratugar.

Ráðið mótar og setur skilgreind og tímasett markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík. Þá mun ráðið og Umhverfis- og samgöngusvið sjá til þess að borgin gangi fram með góðu fordæmi með því að endurnýja bílaflota hennar með raf- og metanknúnum bifreiðum.

Áhersla verður lögð á að vernda græna trefilinn umhverfis höfuðborgarsvæðið og ströndina þar sem hún er ósnortin.
Borgin á að sýna gott fordæmi með því að setja stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar metnaðarfulla umhverfis- og samgöngustefnu með mælanlegum markmiðum. Þá verður leitast við að styrkja nafn Reykjavíkur sem miðstöð í rannsóknum á málefnum norðurslóða, loftslagsbreytinga, jarðhita og endurnýtanlegum orkugjöfum.

Stórauka endurvinnsla í Reykjavík verður meðal verkefna ráðs og sviðs. Loks verður kannaður grundvöllur fyrir því að umhverfisvotta Reykjavík. Þá verður ráðinu falin verkefni heilbrigðisnefndar.

Kosið var í umhverfis- og samgönguráð til fjögurra ára. Sjö aðalmenn og sjö til vara; formannskjör. Kosin voru af DSVÆ lista án atkvæðagreiðslu: Karl Sigurðsson formaður, Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.

Varamenn eru kosnir með sama hætti: S. Björn Blöndal,  Margrét Vilhjálmsdóttir, Kjartan Rolf Árnason, Kristín Erna Arnardóttir, Árni Helgason, Pawel Bartoszek og Claudia Overesc.

Birt:
15. júní 2010
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Nýjar áherslur með nýju fólki í Reykjavík“, Náttúran.is: 15. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/15/nyjar-aherslur-med-nyju-folki-i-reykjavik/ [Skoðað:24. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: