Flest fólk skapar sér eigin fatastíll sem er hluti af persónuleika einstaklingsins. Sumir sauma sér öll föt, aðrir kaupa megnið í Rauða krossinum og enn aðrir fylgja tískustraumum. Það getur verið upplyftandi að kaupa ný föt og oftar en ekki er það árstíðabundið og að kaupa sér sumarföt á vorin getur verið hin besta skemmtun.
Hins vegar verður að hafa í huga að fötin verða að passa persónuleika einstaklingsins. Föt endast einnig lengur en tískubylgjur. Notaðu fötin meðan þau eru heil. Ef þú færð leið á þeim, skilaðu þeim heilum og hreinum til Rauða krossins en ekki henda þeim. Þú getur líka breytt fötunum eða nýtt þau í annað, eins og tuskur eða bútasaum. Föt og efni eru endurnýtt eða seld, bæði hérlendis og erlendis.

Forðastu innkaupaæði, þú sérð eftir því eftir á. Fátt er eins ónauðsynlegt og leiðinlegt en að kaupa föt sem aldrei eru notuð. Það er ekki bara fjárhagsleg eyðsla heldur einnig hefur það mikil áhrif á umhverfið. Hversvegna að kaupa föt þar sem búið er að rækta bómull og meðhöndla með hinum og þessum eiturefnum, uppskera með vélum og flytja yfir hálfan hnöttinn til einskis. Séu föt keypt á að nota þau. Því lengur sem þau eru notuð því hlutfallslega minni eru umhverfisáhrifin. Einnig er hægt að kaupa föt sem eru umhverfismerkt og þá yfirleitt úr umhverfismerktri bómull. Föt eru ekki ónýt þó þau séu óhrein eða að því að einhverjir aðrir eiga eins föt. Njóttu þess að eiga fötin (en ekki henda þeim). Ef persónuleiki þinn er að fylgja tískunni, gerðu það þá en bara ekki í blindni. Það er hægt að fylgja tískunni en velja sér föt úr umhverfisvænum efnum. Mundu einnig að sterkar persónur fylgja ekki fatastílnum, þær skapa hann. Vertu sterkur persónuleiki, skapaðu þinn eigin fatastíl úr þeim fötum sem þér líður vel í. Farðu með öll gömul föt í fatasöfnun Rauða Krossins hvort sem þú telur þau nothæf eður ei. Hluti af fötunum er sendur til Hollands, hakkaður og endurnýttur í ný föt.

Birt:
March 27, 2007
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Fataskápurinn“, Náttúran.is: March 27, 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/27// [Skoðað:June 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 10, 2009

Messages: