Á liðnu ári voru umdeildar virkjanir í Þjórsá á dagskrá í þjóðfélaginu, einnig á hinu háa Alþingi. 10. des. sl. snerist umræðan í þinginu um niðurstöðu á athugun Ríkisendurskoðnar á samningi um afhendingu ríkisins á vatnsréttinum í Þjórsá til Landsvirkjunar, en það gerðist þremur dögum fyrir kosningarnar í maí. Kjartan Ólafsson 4. þingmaður Suðurkjördæmis sté í pontu af þessu tilefni og ræddi um virkjanir á Suðurlandi sem þegar hafa verið reistar og að um þær hafi ekki verið deilt. Síðan segir hann:

„Hér er rætt um það, herra forseti, að verið sé að koma á óeiningu meðal fólks á Suðurlandi. Það er fjarri lagi. Það eru hópar vinstri grænna sem koma í uppsveitir Árnessýslu til að skapa þá andstöðu sem er um þessi mál”.

Undir þessum orðum Kjartans get ég ekki setið þegjandi. Hann fer með slík ósannindi að ekki er sæmandi alþingismanni. Hann hlýtur að vita betur. Kjartan veit að það eru til samtök sem nefna sig Sól á Suðurlandi, hann hefur verið á fundum hjá þessum samtökum og heyrt málflutning manna, eða var hann ekki að hlusta. Les hann ekki sunnlensku blöðin? Sól á Suðurlandi var stofnað til að koma í veg fyrir fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Að halda því fram að Vinsri grænir fari um sveitir Suðurlands til að æsa fólk upp er ótrúlegur og móðgandi þvættingur. Sól á Suðurlandi samanstendur af fólki sem getur ekki hugsað sér að láta eyðileggja náttúruperlur við bæjardyrnar hjá sér. Þar er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og margir eru flokksbundnir sjálfstæðismenn, þar á meðal ég. Ég er ekki vinstri sinnuð og hef aldrei kosið Vinstri græna. Hins vegar verð ég að meðganga að hafa stutt Kjartan Ólafsson í prófkjöri. Það er engin sátt í héraði um þessar virkjanir. Við sem berjumst gegn þeim höfum sjálfstæðar skoðanir og látum ekki segja okkur fyrir verkum. Við gerum okkur ljóst hversu náttúran er dýrmæt og við viljum ekki láta eyðileggja fögur svæði fyrir stundargróða og græðgi auðhringa Ég lít á svæðið ofan Minna-Núps sem anddyri Þjórsárdals og þar með anddyrið að hálendi Íslands. Hagalón myndi tortíma þessum undurfagra bletti. Það má ekki gerast.


Á síðasta ári fóru hins vegar sendiboðarLandsvirkjunar um sveitir Suðurlands, á milli landeigenda við Þjórsá og héldu fram að Landsvirkjun ætti 93% vatnsréttindindanna í ánni. Á fundi í Árnesi í ágúst sl. var spurt hvenær Landsvirkjun hefði fengið vatnsréttindin í sínar hendur. Þá fyrst kom í ljós að það hefði verið í byrjun maí. Það var engin heimild í fjárlögum fyrir afhendingunni og málið hafði ekki verið rætt á Alþingi. Samkomulagið hafði aldrei verið kynnt almenningi. Ráðherrarnir (Árni Mathiesen, Guðni Ágústsson og Jón Sigurðsson), sem undir plaggið skrifuðu, bentu svo hver á annan þegar spurt var hvers vegna almenningur hefði ekki verið upplýstur um málið.

Þegar álit Ríkisendurskoðunar birtist í desemberbyrjun, viðurkenndu ráðherrarnir, fyrrverandi og núverandi, sem skrifuðu undir samkomulag ríkisins og Landsvirkjunar að þeir hefðu alltaf vitað að samkomulagið væri ekki bindandi. Hvers vegna gerðu þeir aldrei athugasemdir við málflutning Landsvikjunarmanna um eignarréttinn? Það hefði verið heiðarlegt. Í hvers konar þjóðfélagi búum við? Hverjum er hægt að treysta? Eru stjórnmálamenn að reyna að plata almenning vísvitandi?

Ég er alin upp á pólítísku heimili þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var í hávegum hafður og foreldrar mínir flokksbundnir. Sjálf gekk ég í flokkinn fyrir tæpum 30 árum. Mér finnst sárt að geta ekki treyst einum einasta sjálfstæðismanni á Alþingi fyrir náttúru Íslands. Enginn þeirra hefur varið náttúrufegurðina við Þjórsá. Þessi mikla elfur hefur skilað sínu til þjóðfélagsins og mun halda því áfram fái hún að renna sína leið. Það er hart að þurfa að treysta á Vinstri græna og Samfylkinguna í þessu máli. Ráðherrum Samfylkingarinnar sem hafa tekið málstað okkar vil ég þakka fyrir stuðninginn. Vonandi láta þeir ekki deigan síga.

Höfundur er grunnskólakennari með meiru, ábúandi að Eystra-Geldingaholti Gnúpverjahreppi.

Myndin er tektin við Þjórsá af sérstöku sjónarhorni heim að Stóra Núpi. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson.

Birt:
22. janúar 2008
Tilvitnun:
Árdís Jónsdóttir „Þingmenn og Þjórsá“, Náttúran.is: 22. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/22/thingmenn-og-thjorsa/ [Skoðað:8. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: