Fráfall góðs félaga
Kæru félagar.
Félagi okkar í náttúruverndarbaráttunni, Atie Bakker í Skaftholti við Þjórsá er látin. Langt fyrir aldur fram.
Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Atie stofnaði ásamt fleirum Sól á Suðurlandi til að berjast fyrir verndun Þjórsár. Atie var lífið og sálin í náttúruverndarbaráttunni við Þjórsá. Hún var eins konar framkvæmdastjóri fyrir þann hóp fólks sem er andvígt virkjunum í Þjórsá. Ófáir voru boðnir í Skaftholt til að reifa málin. Gilti það jafnt um samherja og þá sem vildu virkja.
Atie var fædd í Hollandi en kom fyrst til Íslands 18 ára gömul og hreifst af landinu. Hún hjálpaði okkur að skynja fegurð þess og tilgangsleysi þess að eyðileggja náttúruverðmæti. Við erum henni þakklát fyrir samfylgdina.
Við söknum góðs félaga og sendum eiginmanni hennar, Guðfinni Jakobssyni, hugheilar samúðaróskir.
F.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson.
Ljósmynd: Atie Bakker við Þjórsá þ. 27.07.2007, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Fráfall góðs félaga“, Náttúran.is: 10. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/10/frafall-gods-felaga/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. febrúar 2011