Orkustofnun dregur umsögnina til baka
Orkustofnun telur ekki lengur að vatnsverksmiðja í Ölfusi hafi umtalsverð umhverfisáhrif.
Forsvarsmenn verksmiðjunnar krefjast þess að umhverfisráðherra úrskurði aftur. Óheyrilega ófagleg vinnubrögð segir framkvæmdastjóri IWH.
Orkustofnun telur ekki lengur að fyrirhuguð vatnsátöppunarverksmiðja í Ölfusi hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Á grundvelli eldri niðurstöðu stofnunarinnar úrskurðaði umhverfisráðherra að verksmiðjan skyldi í umhverfismat.
"Þetta hefur skaðað okkur mjög mikið," segir Ragnar Birgisson, forstjóri Icelandic Water Holding (IWH), sem reisir verksmiðjuna. Hann reiknar með að ráðherra felli úrskurðinn úr gildi í kjölfar umsagnar Orkustofnunar.
Með úrskurði sínum felldi Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki þyrfti að vinna umhverfismat. Niðurstöðuna byggði hún að hluta á umsögn Orkustofnunar.
Forsvarsmenn IWH kröfðust í kjölfarið endurupptöku á úrskurðinum og óskaði ráðherra eftir umsögn Orkustofnunar um endurupptökubeiðnina. Svar stofnunarinnar var sent ráðherra í gær. Þar kemur fram að stofnunin telji ekki lengur líklegt að verksmiðjan muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.
Orkustofnun gerði einkum athugasemd við tvennt í fyrri umsögn sinni; frárennsli og hættu á mengunarslysum við þungaflutninga.
Í síðari umsögninni kemur fram að með mótvægisaðgerðum megi koma í veg fyrir mengunarslys. Þá sýni mælingar á frárennsli að það sé svo til eins og vatn í lindum á svæðinu. Þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir við gerð fyrri umsagnar."Mér finnst þetta óheyrilega ófagleg vinnubrögð," segir Ragnar Birgisson hjá IWH. "Þetta er slæm stjórnsýsla, okkar fyrirtæki var beitt mikilli ósanngirni."
Allar upplýsingar komu fram í upprunalegum gögnum frá fyrirtækinu, segir Ragnar. "Það er eins og Orkustofnun hafi ekki lesið gögnin," segir hann.
Frá því ráðherra úrskurðaði að verksmiðjan þyrfti í umhverfismat fyrir rúmum mánuði hafa allar framkvæmdir verið í uppnámi, segir Ragnar.
"Þetta hefur skaðað okkur mikið, bæði hvað varðar fjármögnun og framkvæmdahraða við verksmiðjuna," segir hann.
Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu er ákvörðunar að vænta á næstunni um það hvort orðið verði við beiðni IWH um endurupptöku úrskurðar ráðherra.
brjann@frettabladid.is
Myndin er af flöskum vatnsins Iceland Glacial sem munu verða framleiddar í nýju verksmiðjunni.
Birt:
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Orkustofnun dregur umsögnina til baka“, Náttúran.is: 13. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/13/orkustofnun-dregur-umsognina-til-baka/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.