Fulltrúar Breytenda, ungliðahreyfingar Hjálparstarfs kirkjunnar, afhentu Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra, undirskriftir sem hreyfingin safnaði undir yfirskriftinni hlýnun jarðar er mannréttindamál. Undirskriftunum hafði verið safnað á íspinnaprik við ýmsa gjörninga og atburði í sumar og haust og úr þeim var byggður hvirfilbylur sem er táknrænn fyrir þann vanda sem steðjar að jörðinni, verði ekkert að gert. (Sjá myndir í viðhengi)
Með undirskriftunum krefjast Breytendur þess að stjórnvöld skilgreini stöðu flóttamanna undan hlýnun jarðar og viðbrögð Íslands við þeim sem kunna að leita sér hælis hér vegna hennar. Þeir krefjast þess einnig að Íslendingar taki sér stöðu meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum í Kaupmannahöfn í desember 2009.

Undirskriftasöfnunin er hluti af herferð sem Breytendur stóðu fyrir síðastliðið sumar og haust og var ætlað að vekja athygli á stöðu fólks sem eru flóttamenn vegna loftslagsbreytinga. Samkvæmt tölum frá Rauða krossinum eru nú fleiri sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna hlýnun jarðar en stríðsátaka. Hlýnun jarðar leiðir meðal annars til uppskerubrests, útbreiðslu eyðimarka, hækkunar sjávarmáls, bráðnunar jökla og öfga í veðurfari. Samkvæmt Háskóla Sameinuðu þjóðanna eru flóttamenn vegna hlýnunar jarðar um 24 milljónir í dag en áætlað er að þeir verði um 50 milljónir í lok árs 2010. Breytendur hafa vakið athygli á þessu vandamáli einkum vegna þess að þetta fólk hefur engin skilgreind réttindi í alþjóðasamfélaginu.

Mynd af vef Umhverfisráðuneytisins. Breytendur afhentu umhverfisráðherra undirskriftir sem safnað var á íspinna sem síðan voru settir saman í hvirfilbyl.

Birt:
12. nóvember 2009
Höfundur:
Breytendur
Uppruni:
Breytendur
Tilvitnun:
Breytendur „Breytendur afhentu umhverfisráðherra undirskriftir“, Náttúran.is: 12. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/12/breytendur-afhentu-umhverfisraoherra-undirskriftir/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: