Hún er 20. júlí og var lögleidd árið 1237 í minningu þess, að þann dag árið 1198 voru upp tekin og lögð í skírn bein Þorláks biskups Þórhallssonar hins helga í Skálholti. Hún var ein mesta hátíð ársins fyrir siðbreytingu, þó einkum í Skálholtsbiskupsdæmi.

Helgi hins sæls Þorláks varð um biskupsstólnum í Skálholti drjúg tekjulind. Heitgjafir voru hvarvetna um heim með meiriháttar tekjustofnum katólsku kirkjunnar. Áheit þóttu á þeim tíma vera einn af fáum varnarleikjum almennings gegn öllu illu. Og ekki varð hann kenndur við galdur. Áður en helgi Þorláks biskups var lögleidd á Alþingi 1199, hafði áheitaféð streymt út úr landinu, einkum til Ólafs helga í Niðarósi, til stórskaða fyrir íslensku kirkjuna og jafnvel landslýðunn allan. Nú tók að mestu fyrir þann fjármagnsútflutning. Því er engin furða, þótt erkibiskupsstóllinn í Niðarósi vildi lengi fram eftir öldum ekki viðurkenna heilagleik hins sæla Þorláks. Má sú andstaða hafa valdið því, að páfinn í Róm viðurkenndi Þorlák aldrei sem dýrling, því að meðmæli erkibiskups hefðu helst þurft að koma til. Því mátt auðvitað hæglega bera við, að rammveraldleg stofnun, Alþingi á Þingvöllum, hefði lýst Þorlák helgan mann.

En páfinn hafði frá 1172 áskilið sér einkarétt til að velja dýrlinga. Íslendingar urðu því höndum seinni, enda voru fyrstu íslensku biskuparnir ekki sérdeilir píslarvættislegir. En af þessari togstreitu spruttu ýmis hláleg viðbrögð. Skal hér sem dæmi tekin frásögn úr Lárentius sögu biskups af því, er hann á ungum aldri var sendur frá Noregi til eftirlits með kristnihaldi á Íslandi ásamt norskum kórsbróður, Birni að nafni.

Settust þeir fyrst að hjá Árna biskupi Helgasyni í Skálholti og var það sumarið 1307. Urðu þar þessir árekstrar, og verður að geta þess til skýringar, að mönnum var skylt að fasta fyrir veisludaginn sjálfan:
“Svo sem kom hinn næsta dag fyrir Þorláksmessu á sumarið, talaði Laurentíus svo til bróður Bjarnar: “Nú er sókn mikil hingað til Skálholts af öllu Íslandi. Skaltu nú fyrir hugsa þig, bróðir Björn, að prédika á morgun, einkanlega af dýrð hins heilaga Þorláks biskups, þvi að það er nú viðurkvæmilegast.” Þá svaraði bróðir Björn: “Undarlegir menn eruð þér Íslendingar, því að þér kallið þá marga heilaga menn, sem hér hafa vaxið upp hjá yður og í öðrum löndum, vita menn öngar skynjar á. Því er mikil dirfð yðar Íslendinga, að þér haldið þennan mann heilagan, sem erkisbiskupsstóllinn í Niðarósi heldur önga minning af. Skal ég heldur í kveld, sem þeir klerkarnir ætla að fara til aftansöngs, fara upp á kór og fyrirbjóða biskupinum og öllum klerkum að syngja af þessum manni, Þorláki, fyrr en það er lögtekið af vorum herra erkibiskupinum og öllum viskupum í provincia Nidarosiensis ecclesiae. Og svo vil ég, að þú gerir, því að þú ert í jöfnu umboði og valdi sem eg.”
“Hætt þú, hættu”, sagði Laurentíus, “og lát eigi ofar koma þessa fólsku. Því að það vita allir hér á þessu landi og svo víða annars staðar, að hinn heilagi Þorlákur biskup er sannheilagur maður, og hann gerir margar ágætar jarteiknir og hefur gjört. Og hann mun hefna þér, ef þú bætur eigi við Guð og þann blessaða biskup.”

Skildu þeir svo sínu tali, að sinnsiginn þótti hvorum. Kallaði bróðir Björn til sín steikara sinn og bað hann matgjöra sér kjöt daginn fyrir Þorláksmessu í Skálholti. Þótti mörgum þetta mjög undarlegt. Var hringt til helgihalds um kveldið. Og svo sem komið var að aftansöngstíma, kom maður skyndiega inn gangandi til síra Laurencii, segjandi að Björn bað hann koma skjótlega til sín. Hann gekk í þá stofu, sem hann var í. Sá hann bróður Björn liggja í sæng sinni stynjandi með sjúklegu andvarpi. Talaði þá bróðir Björn til Laurencii:
“Hvað skal ég að gjöra, kompán, að eg er orðinn fyrir svo þungu áfelli, að svo stingur mig í hjartað, að mér þykir líkara, ef svo lætur um tíma, að eg muni skjótt deyja.”
“Eigi er það undranda, “ sagði síra Laurentíus, “þó að þér beri þetta til, því að þú talaðir mjög óviturlega í morgun misgrunandi heilagleik þess ágæta Guðs vinar, hins heilaga Þorláks biskups, er skín mörgum ágætum jarteiknum. Og svo vita menn, að hann er miskunnsamur viður þá, sem til hans krjúpa. Svo er hann og mjög hefnisamur þeim, sem í mót honum brjóta. Að því gafst einum dára í Englandi, að hann þóttist gjöra til háðungar og spotts viður hinn heilaga Þorlák biskup, takandi eitt mörbjúga framberandi fyrir líkneski Þorláks biskups þessum orðum talandi: “Viltu mör, landi, því að þú ert utan af Íslandi?” Fékk sá dári svo skjóta hefns, að sú höndin, sem upp hélt mörbjúganu, varð honum svo stirð sem tré. Varð hann þar að standa með uppréttri hendi, þar til sem góðir menn báðu fyrir honum, og hann iðraðist síns glæps.”

“Gjarnan vil ég iðrast,” sagði bróðir Björn, játandi því, “að ég skal trúa allt satt það, sem af hans dýrðð og heilagleik er sagt héðan af, ef hann vill minn árnaðarorð. Skal ég og á morgun prédika af hans loflegu lífi og jarteiknum.”
Og þegar sem hann hafði þessu játað, hvarf í burt af honum hans krankleiki, svo að hann stóð upp alheill og prédikaði um morguninn fagurlega af Þorláki biskupi fyrir fólkinu, segjandi ljóslega og hróslega, hversu honum hafði til borið. Fékk hinn heilagi Þorlákur biskup enn af þessum hlutum frægð, lof og dýrð, sem verðugt er í öllum hlutum.”
Þessi skemmtilega heimild er aðeins eitt dæmi af mörgum, sem sýna, að á Þorláksmessu sumars safnaðist fjöldi fólks úr mörgum sveitum til Skálholts.Var þá mikið við haft í helgisiðunum. Dýrlegastur atburður var sá, er skrímið með jarðneskum leifum hins sæla Þorláks var borið út úr dómkirkjunni í skrúðgöngu kringum hana og um kirkjugarðinn með logandi vaxljósum og klukknahringinum. Biskupinn og annar kennilýður skrýddir dýrustu messuklæðum, gegnu í fararbroddi, en gjörvallur fólksfjöldinn fylgdi á eftir með söngum og talnalestri. Á eftir þessari helgiathöfn hélt biskup veglega veislu, og herma þó óljúgfróðar sagnir, að færri hafi komist eins nægilega að og vildu.
Þetta helgihald var að sjálfsögðu afnumið opinberlega við siðbreytinguna um miðja 16. öld. Alþýðlegur fylgifiskur þess virðist þó hafa haldið við miklu lengur. Sagt er, að smaladrengir og stúlkur, sem vel höfðu gætt búsmalans fram til Þorláksmessu, mættu vera sjálfráð þann dag og óháð húsbændum sínum. Þar á ofan máttu þau eiga málsmjólkina undan bestu kúnni eða annað jafnverðmætt af búsafurðum. Úr þessu gerðu þau eitthvert góðgæti og kölluðu smalabú. Síðan riðu smalarnir, piltar og stúlkur, með smalabú sín um sveitina, kölluðu smalabúsreiðar, héldu átveislur og höfðu ýmis læti í frammi. Þótti sá rækilegast halda Þorláksmessu, sem frakkastur var í þessu.
Svo mikið er a.m.k. hæft í þessu, að Oddur biskup Einarsson lætur árið 1592 banna smalabúsreiðar á prestastefnu. Þetta bann er síðan ítrekað öðru hverju á næstu árum ásamt ýmsu öðru ósiðlæti.

Hinsvegar er ekki vitað með vissu, hvort þær lögðust alfarið niður við þessar bannlýsingar. Ýmislegt bendir til þess, að svo hafi ekki verið. Vitað er, að þær tíðkuðust enn í Vesturskaftafelssýslu og undir Eyjafjöllum, um miðja 19. öld, þó með dálítið öðrum hætti. Nú hétu þær aðeins smalareiðar og voru ekki farnar á hinni fornu Þorláksmessu, heldur 15. sunnudag í sumri, sem að vísu er aldrei mjög langt frá 20. júlí, þ.e. 18.-25.júlí eftir gamla stíl.
Þá voru og engin “smalabú” meðferðis, heldur riðu smalar og oft fleira vinnufólk í flokki saman í heimóknir á aðra bæi. Þótti þá sjálfsagt að veita þeim vel.
Einsog þegar sagði er heimild þessi frá miðri 19. Öld En óljúgfróð frásaga er til um, að þær hafi viðgengist á svipuðum slóðum seint á 18. Öld. Í skýrslum sínum um Skaftárelda finnur sr. Jón Steingrímsson a.m.k. þann ljósan punkt í öllum hörmungum móðuharðindanna, að “í þeim verslegu hlutum aftókust þær blygðunarlausu svokallaðar “smalareiðir” og drykkjusvall, þá hver og einn át og drakk, sem hann hafði lyst og efni til. Var það mikið að kenna prestum þeim, sem gefnir voru fyrir þeirra ádrykkjum, að sá óvandi viðhélst. Betur hann kæmist hér aldrei framar á með sama hætti og var.”

Álíka siður var alþekktur í Noregi, meðan selfarir voru þar sjálfsagður sveitasiður. Sel lögðust svotil alarið niður nálægt lokum 19. Aldar á Íslandi, en höfðu þó lengi verið að deyja út. Fráfærur eru niður felldar nokkrum áratugum seinna, nokkuð mismunandi eftir landshlutum Var því sjálfgert, að þessi gleðidagur dytti úr sögunni.

Heyannir eru 4. mánuður sumars eftir forníslensku tímatali og getur hafist á sunnudeginum 23. til 29. júlí. Hann er einn af fáum mánuðum, sem ekki hefur aukanöfn í Snorra Eddu og ágúst heitir í almanaki Guðbrands og Arngríms líka heyannamánuður.

Birt:
20. júlí 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Þorláksmessa á sumar“, Náttúran.is: 20. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/orlksmessa-sumar/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: