Íslensk framleiðsla á grænmeti hefur líklega aldrei verið mikilvægari en nú og brýnt að reyna að auka innlenda framleiðslu enn frekar. Til að geta framleitt íslenskt grænmeti allt árið um kring er raflýsing grundvallaratriði með tilheyrandi raforkunotkun. Garðyrkjubændur nota mikið rafmagn en raforkunotun til gróðurhúsalýsingar í atvinnuskyni var um 62 GWst árið 2008. Þetta samsvarar raforkunotkun 13 þúsund heimila.

Raforkukostnaður vegur þungt í þessari atvinnugrein en til að bæta samkeppnisstöðu greinarinnar niðurgreiðir ríkið kostnað við raforkudreifingu. Árið 2008 greiddi ríkið um 167 milljónir í niðurgreiðslur á raforkudreifngu til greinarinnar.  Það ætti því að vera hagsmunamál beggja aðila að reyna með öllum hætti að lækka raforkukostnað garðyrkubænda og ríkis.

Orkusetur iðnaðarráðuneytisins og Vistvæn Orka ehf hafa nú hafið samstarf um lokasmíði og prófanir á ljósdíóðulömpum sem þróaðir eru á Íslandi. Fyrirtækið Vistvæn Orka ehf. hefur unnið að þróun hagkvæmra gróðurhúsalampa sem byggja á LED ljósdíóðutækni og ætlaðir eru fyrir garðyrkjubændur sem hafa matjurta- og blómarækt að atvinnu. Meðal nýjunga er hár endingartími, eða allt að 100.000 klst., mikill raforkusparnaður í samanburði við háþrýsta natríumlampa (HPS) og innbyggð þjófavörn.

Prófanir á LED löpunum verða gerðar í haust og má vænta fyrstu niðurstaðna fyrri hluta vetrar. Ef vel gengur má ætla að lamparnir geti lækkað verulega rekstrarkostnað í garðyrkju og gert íslenskt grænmeti samkeppnishæfara en áður.  Hér er því verið að nýta íslenskt hugvit og nýsköpun til að efla eldri atvinnugrein. Þannig gæti verið mögulegt að ná fram verulegum orkusparnaði sem dregur úr rekstrarkostnaði garðyrkjustöðva og lækkar jafnframt framtíðarniðurgreiðslur ríkisins. Orkusetur mun birta allar niðurstöður og kynna fyrir garðyrkjubændum um leið og staðfest tölfræðigögn liggja fyrir.

Myndin er af tómötum í gróðurhúsi í Skaftholti. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
29. júní 2009
Uppruni:
Orkusetur
Tilvitnun:
Sigurður Ingi Friðleifsson „Orkusetur og Vistvæn Orka ehf. hefja samstarf um smíði og prófanir á ljósdíóðulömpum fyrir garðyrkju“, Náttúran.is: 29. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/29/orkusetur-og-vistvaen-orka-ehf-hefja-samstarf-um-s/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 8. júní 2011

Skilaboð: