Ríkisstjónin í Þýskalandi hefur ákveðið að slökkva á öllum kjarnorkuverum sínum á næsta áratug. Þetta var ákveðið á fundi stjórnarinnar sem hófst í gær og stóð langt fram á nótt. Mikil umræða hefur verið í landinu um kjarnorkumál í kjölfar slyssins í Fukushima kjarnorkuverinu í Japan og mótmæltu þúsundir manna kjarnorkunni víða um land.

Umhverfisráðherrann Norbert Rottgen sagði á blaðamannafundi eftir að ákvörðunin var tekin að sjö gömul kjarnorkuver sem þegar hefur verið slökkt á tímabundið muni aldrei komast aftur í gagnið. Sex öðrum verum verður lokað fyrir árið 2021 og þrjú nýjustu kjarnorkuver landsins munu hætta starfsemi árið 2022.

Áður en slökkt var tímabundið á gömlu verunum í mars síðastliðinn komu 23 prósent af allri orku sem notuð er í Þýskalandi frá kjarnorkuverum og hafa talsmenn kjarnorkunnar í landinu varað við því að lokanirnar muni hafa neikvæð áhrif á þýskan iðnað í heild sinni.

Birt:
30. maí 2011
Höfundur:
Vísir.is
Uppruni:
Vísir.is
Tilvitnun:
Vísir.is „Þjóðverjar ætla að loka öllum kjarnorkuverum sínum“, Náttúran.is: 30. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/31/thjodverjar-aetla-ad-loka-ollum-kjarnorkuverum-sin/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. maí 2011

Skilaboð: