Einstakar jurtaolíur
Einstakar jurtaolíur heitar og kaldar eru ýmist gerðar úr blómum eða blöðum líkt og te. Sé annað ekki tekið fram gildir sú regla að mestur kraftur sé í blöðum plöntunnar rétt fyrir blómgun en það sakar ekki að taka blómin með. Gullgerðarlistin kenndi að í eimaðri olíu blómanna birtist sál þeirra. Þó hér sé olían ekki eimuð úr blómunum sjálfum má gera ráð fyrir að eitthvað af sál plantnanna síist út í olíuna fyrir tilstilli sólarinnar.
- Arfaolía er best gerð með heitu aðferðinni. Hún er sögð góð gegn húðertingu og exemi.
- Blóðbergsolíumá nota sem nuddolíu.
- Blöðruþangsolíu má bera á bólgna liði og gigtarsjúka. Tekin eru 500 g af þurrkuðu blöðruþangi og þau lögð í sólarhring í 1/2 lítra af sólblómaolíu. Síðan er olíunni haldið vel heitri í vatnsbaði í 2 klukkustundir og að því loknu er þangið síað frá.
- Jóhannesarrunnaolíu má nota á bólgna liði og væg brunasár.
- Morgunfrúarolía er gerð með köldu aðferðinni og sett út í baðvatn því hún róar taugarnar. Hún er einnig góð fyrir húðina og slitnar æðar.
- Rósaolíu má hafa út í baðvatn og nota sem nuddolíu.
- Rósmarínolía er gerð með heitu aðferðinni. Hún er góð fyrir hársvörðinn og auma limi.
- Vallhumalsolía er góð nuddolía og hún er gerð með köldu aðferðinni.
- Valurtarolía er gerð með heitu aðferðinni. Hana má nota á bólgna liði og tognaða, einnig er hún talin vinna gegn liðagigt.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Birt:
12. júlí 2015
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Einstakar jurtaolíur“, Náttúran.is: 12. júlí 2015 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/einstakar-jurtaolur/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 12. júlí 2015